Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Flokkur Merkel galt afhroð í sambandsríkjakosningum

14.03.2021 - 23:07
epa09074603 Rhineland-Palatinate State Premier Malu Dreyer of the Social Democratic Party (SPD) speaks to the media following the Rhineland-Palatinate state elections, at the state chancellery (Staatskanzlei) in Mainz, Germany, 14 March 2021. The state elections in Baden-Wuerttemberg and Rhineland-Palatinate mark the beginning of the so-called 'Superwahljahr' (super election year) culminating with the federal elections slated for 26 September 2021.  EPA-EFE/SASCHA STEINBACH
Malu Dreyer, leiðtogi Jafnaðarmanna í Rínarlandi-Pfalz. Mynd: EPA-EFE - EPA
Kristilegir demókratar guldu afhroð í sambandsríkjakosningum í dag ef marka má útgönguspár. Samkvæmt þýskum fjölmiðlum virðist flokkurinn vera að fá verstu kosnigu í sögu sinni bæði í Baden-Wüttemberg og Rínarlandi-Pfalz. Kosningarnar eru sagðar gefa vísbendingar um þingkosningarnar í haust.

Verði þetta niðurstaðan bendir því ýmislegt til þess að eftirmaður Angelu Merkel Þýskalandskanslara komi úr öðrum flokki en Kristilegum demókrötum.
Græningjar virðast standa uppi sem sigurvegarar í Baden-Württemberg með rúm þrjátíu prósent atkvæða samkvæmt útgönguspám. Kristilegir demókratar tapa nærri fjórum prósentustigum frá því fyrir fimm árum, eru með rúm 23 prósent. Í Rínarlandi-Pfalz eru Jafnaðarmenn efstir með um 34 prósent atkvæða miðað við útgönguspár, en Kristilegir demókratar næst efstir með rúman fjórðung atkvæða.

Ástæður fyrir slælegu gengi Kristilegra demókrata kunna að vera margar. Meðal þeirra eru óánægja með hversu hægt gengur að bólusetja við kórónuveirunni, sein byrjun á skimun fyrir veirunni og að ný bylgja hafi komist af stað í landinu þrátt fyrir harðar aðgerðir í marga mánuði. Þá hefur komið í ljós síðustu daga að þingmenn Kristilegra demókrata og systurflokks þeirra CSU hafi hagnast persónulega á viðskiptum með grímur í upphafi faraldursins. Þrír þingmenn sögðu af sér með skömmu millibili vegna þessa.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV