Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Borgin leitar til spítalans vegna myglu í Fossvogsskóla

Mynd með færslu
 Mynd:
Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hefur nú leitað til Barnaspítala Hringsins um samstarf vegna heilsufars barna í Fossvogsskóla í kjölfar myglu í húsnæði skólans. Skólastjóri segir nokkuð um að foreldrar biðji um að börn þeirra séu ekki í tilteknum rýmum í skólanum. Tilkynnt hefur verið um einkenni hjá á þriðja tug barna.

Mygla hefur verið viðvarandi í húsnæði Fossvogsskóla síðan í byrjun ársins 2019, ráðist hefur verið í ýmsar framkvæmdir til að koma í veg fyrir hana og um tíma fór kennslan fram í öðru húsnæði.

Þessar aðgerðir hafa ekki borið tilætlaðan árangur og í lok síðasta árs kom mygla enn og aftur upp í skólanum. 
Helgi Grímsson sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar segir að sviðinu hafi borist tilkynningar um 24 börn sem kenni sér meins vegna myglunnar og nú hafi borgin leitað til Barnaspítala Hringsins vegna þessa. 

„Okkur finnst mikilvægt að hafa yfirsýn yfir heilsufar og líðan þessara barna sem kenna sér meins, varðandi sameiginleg einkenni eða eitthvað annað til að reyna að stuðla að því að þeim líði betur í skólanum sínum. Það er það sem okkur gengur til. En við vitum ekki hvort af þessu verkefni verður,“ segir Helgi.

„Allir sem koma að málinu eru að  vinna að því að gera sitt allra besta til að bregðast við þessum einkennum,“ segir Ingibjörg Ýr Pálmadóttir skólastjóri Fossvogsskóla. „Það eru viðgerðir fyrirsjáanlegar og það hafa verið viðgerðir.“ 

Eru foreldrar að óska eftir því að börnin þeirra séu ekki í tilteknum rýmum í skólanum?  „Það hefur komið fyrir.“ Er alltaf hægt að verða við því? „Það hefur ekki alltaf  tekist.“

Ingibjörg Ýr segir að nokkrir úr hópi starfsfólks skólans hafi fundið fyrir einkennum sem séu rakin til myglunnar í húsnæðinu. Spurð hvort einhverjir úr þeim hópi hafi þurft að vera frá vinnu vegna þess segir hún hún það ekki hafa verið staðfest.