Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bólusetja þarf 1.830 á dag til að ná markmiðinu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Bólusetja þarf 1.830 manns á dag á hverjum degi til júlíloka eigi að takast að byrja að bólusetja alla 17 ára og eldri fyrir lok júlí. Ákveðið verður næstu daga hvort haldið verður áfram að nota AstraZeneca. Stjórnvöld hafa engar upplýsingar um hvenær bóluefni Janssens kemur. 

Framhald AstraZeneca skýrist næstu daga

Nokkur lönd, Ísland, þeirra á meðal stöðvuðu notkun AstraZeneca bóluefnisins fyrir nokkrum dögum. Síðast í gær bárust fréttir af því að Norðmenn væru að rannsaka hvort samhengi væri á milli blóðtappa í þremur heilbrigðisstarfsmönnum og bóluefnisins. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir þó ekkert því til fyrirstöðu á halda áfram að nota AstraZeneca.

„Það er bara eftir að skoða þetta. Við erum að draga fram tölur hér á Íslandi um hver tíðnin á því er hér og bera það sem við þá sem voru bólusettir og sjá svona hvernig landið liggur. Og við erum líka að sjá tíðnitölur annars staðar frá og svo er náttúrulega Lyfjastofnun Evrópu að skoða þetta aðeins betur,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sem segir að nú eftir helgi komist þetta á hreint.

Hafa ekkert heyrt frá Janssen

Stjórnvöld hafa samið um kaup á 235 þúsund skömmtum af bóluefni Janssens sem fékk markaðsleyfi vikunni. Fyrirtækið Distica mun dreifa því eins og hinum bóluefnunum sem þegar eru komin í dreifingu. Distica hefur ekki fengið neina afhendingaráætlun. Sama á við um sóttvarnalækni: 

„Ég get eiginlega ekki svarað því vegna þess að við höfum ekki fengið neinar upplýsingar um hvenær þeir ætla að láta okkur fá dreifingaráætlun.“ 

Búið að bólusetja 34 þúsund af 287 þúsund manns

Í fyrradag varð ljóst að bólusetningar frestast um mánuð vegna tafa á afhendingu AstraZeneca. Heilbrigðisráðherra sagði þá að hægt verði að bjóða öllum eldri en 16 ára bóluefni fyrir lok júlí. 

Samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofunnar var fjöldi þeirra sem voru 17 ára og eldri um síðustu áramót 287 þúsund manns. Nú er búið eða byrjað að bólusetja 34 þúsund manns. Því er eftir að bólusetja 253 þúsund manns.

Miðað við þessar tölur verður að halda vel á spöðunum því fjórir og hálfur mánuður er til loka júlí. Ef allir eldri en 16 ára hafa byrjað að fá bólusetningu, það er fengið að minnsta kosti fyrsta skammt, fyrir júlílok þarf að bólusetja rúmlega 1830 manns á dag alla sjö daga vikunnar þangað til. Það gengur alla vega ekki upp í mars því gert er að ráð fyrir að aðeins níu þúsund manns til viðbótar verði bólusettir til marsloka. 

Í reglugerð um bólusetningar segir að börnum fæddum 2006 eða síðar verði ekki boðin bólusetning. Það þýðir að þeir sem verða 16 ára á þessu ári verður boðin bólusetning. Samkvæmt því voru í þeim aldurshópi árið 2020 samkvæmt Hagstofu Íslands 4.350 manns. Því má bæta þeim við þann hóp sem eftir er að bólusetja þ.e. 253.000 + 4.350 = 257.350.