Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Bíllinn hoppaði og skoppaði við stóra skjálftann

Ísólfsskáli og Suðurstrandarvegur við fjallið Slögu, fyrir framan Nátthaga
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Selfyssingarnir Ebba Ásgeirsdóttir og Guðni Guðjónsson voru stödd því sem næst skjálftamiðju stóra skjálftans rúmlega tvö. Þau voru akandi á Suðurstrandarvegi á stórum bíl austan Grindavíkur ekki langt frá Festarfjalli og Borgarfjalli. 

Eins og að hrista barnavagn

Guðni segir að þau hafi verið að koma að mælastöð við veginn: 

„Þá er bara eins og það sé kippt til hliðar bílnum. Hann missir bara jafnvægið, bíllinn. Þetta var ekki eitt skot, þetta var alveg svona eins og þú tækir barnavagn og myndir hrista hann. Ég þurfti alveg að hafa mig við til að halda bílnum á veginum. Þetta eru ótrúlega miklir kraftar sem virðast vera þarna á ferðinni,“ segir hann. 

Rykstrókar eftir hrun í fjöllum

Þau óku til Grindavíkur og sáu að íbúar höfðu margir farið út á götu eftir skjálftann. Hann sá engar skemmdir á veginum:

„Við sáum hrun í fjöllum og þarna úr berginu vinstra megin þegar maður keyrir niður hjá gryfjunum, niður af fjallinu, þar var augljóst að það hafði farið stór fylla niður af því að rykið var ekkert sest þó að við færum niður í Grindavík og snerum við og keyrðum til baka aftur þá var rykið ennþá í loftinu.“

Vön stórum skjálftum en ekki í bíl

Þau Guðni og Ebba hafa upplifað alla stóra skjálfta síðustu ár. Þau eru uppalin í Hveragerði og voru í skjálftunum árin 2000 og 2008. Þau eru því vön og voru ekki skelkuð.

„En við höfum aldrei upplifað svona í bíl. Og þetta er svolítið magnað þegar maður hefur ekki stjórn á svona stórum bíl að hann kastast til bara á veginum, hoppar bara fram og til baka. Og þú hefur ekki stjórn á bílnum sko,“ segir Ebba Ásgeirsdóttir.