Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Stríðið gegn offitu hefur mislukkast hrapallega“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samtök um líkamsvirðingu lýsa yfir áhyggjum af sjúkdómsvæðingu holdafars og aðgerðaleysi vegna fitufordóma og mismununar. Það eigi sér meðal annars stað innan íslenska heilbrigðiskerfisins og í stefnumótun Landlæknisembættisins.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem Tara Margrét Vilhjálmsdóttir formaður samtakanna sendi frá sér í tilefni þess að í dag 13. mars er árlegur dagur líkamsvirðingar.

Dagurinn er tileinkaður þolendum fitufordóma og til að veita þeim vettvang til að deila reynslu sinni. Sömuleiðis þurfi að sýna fram á fitufordómar og mismunun þeirra vegna sé kerfisbundið vandamál innan heilbrigðiskerfisins. 

„Við verðum að fara að horfast í augu við þá staðreynd að rétt eins og stríðið gegn fíkniefnum hefur stríðið gegn offitu mislukkast hrapallega og að grípa þurfi til skaðaminnkandi aðgerða áður en skaðinn verður meiri og alvarlegri.“

Í tilkynningu samtakanna segir að 27% þjóðarinnar tilheyri offituflokki eftir BMI-staðli og að sá misskilningur sé ríkjandi að barátta fyrir líkamsvirðingu snúist eingöngu um útlit.

Taka þurfi frásagnir af fordómum og mismunun alvarlega því það geti útskýrt lífstílskvilla og verulega auknar líkur á ótímabærum dauða. Skapa þurfi samfélag líkamsvirðingar sem geri öllum kleift að þrífast óháð lögun, útliti eða stærð.

Heilbrigðisstéttir og ráðafólk í í málaflokknum er sérstaklega hvatt til að kynna sér fræðilega umföllun um skaðsemi ríkjandi nálgunar að heilsufari sem birt er í tilefni dagsins.