Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Sakar lækna um að ætla að beita sjúklingum fyrir sig

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hyggst ræða við sérgreinalækna og segir mjög alvarlegt að þeir ígrundi að láta sjúklinga greiða allan lækniskostnað og hafa ekki milligöngu um niðurgreiðslu ríkisins. Hún sakar sérgreinalækna um að beita sjúklingum fyrir sig í þágu eigin hagsmuna.

Í Kveik á fimmtudag var fjallað um deilu sérgreinalækna og Sjúkratrygginga Íslands um greiðslur fyrir læknisverk. Læknafélag Reykjavíkur sagði sig fyrir tveimur árum frá samningum við Sjúkratryggingar en hafa engu að síður séð um að innheimta niðurgreiðslu ríkisins og þannig rukkað sjúklinga aðeins um þeirra hlut í kostnaðinum. 

Rætt var við Þórarinn Guðnason, formann Læknafélags Reykjavíkur, í Kveik.

„Það má vel vera að læknar muni afsegja sig…ja…eigum við að segja þeirri byrði að vera einhvers konar milligöngumaður milli sjúklingsins og hans tryggingafélags,“ sagði Þórarinn.

Þetta myndi þýða að sjúklingar þyrftu að leggja út fyrir öllum lækniskostnaðinum sem getur hlaupið á tugum þúsunda og innheimta sjálfir endurgreiðslu frá Sjúkratryggingum. Bæði Öryrkjabandalagið og Krabbameinsfélagið gagnrýndu þetta í hádegisfréttum RÚV og segja þetta íþyngjandi fyrir þá sem leita þurfi læknis.

„Mér finnst þetta mjög alvarleg staða, ef satt reynist, að sérgreinalæknar hafa komið sér saman um að beita sjúklingum fyrir sig í eiginhagsmunaskyni. Ég vil bara heyra í þeim með hvort þetta sé raunverulega það sem þeir ætli sér að gera til þess að þrýsta á um einhverjar breytingar í eigin þágu. Ég vil ekki trúa því fyrr en ég tek á því,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra (V).

Öryrkjabandalagið segir að verði þetta niðurstaðan muni margir veigra sér við að leita læknis.

„Mér finnst þetta, jú, mér finnst þetta bara mjög alvarlegt vegna þess að verkefnin númer eitt tvö og þrjú í heilbrigðisþjónustunni er að sinna veiku fólki,“ segir Svandís.