Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Rúmlega nítján hundruð skjálftar hafa mælst í dag

Endirinn á Sveifluhálsi og fjöllin til vesturs, frá Suðurstrandavegi.
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Frá því um miðnætti í dag 13. mars hafa rúmlega 1900 skjálftar mælst á Reykjanesskaga að því er fram kemur í tilkynningu náttúruvársérfræðinga á Veðurstofu Íslands.

 

Mesta virknin var við Fagradalsfjall eins og undanfarna daga en nokkrir skjálftar mældust suður af Keili. Það sem af er degi hafa 20 skjálftar mælst yfir 3 að stærð, þar af var einn við Trölladyngju.

Stærsti skjálfti dagsins var af stærðinni 4,6 og mældist klukkan rúmlega hálf tvö í nótt. Sá skjálfti fannst víða um sunnan- og suðvestanvert landið.

Um klukkan 16 í dag varð skjálfti sem mældist 3,4 að stærð sem átti upptök sín um einn og hálfan kílómetra suð- suðvestur af Keili. Hann fannst á höfuðborgarsvæðinu og í Borgarnesi.

Frá því að skjálftahrinan hófst 24. febrúar hafa alls ríflega 41 þúsund skjálftar mælst á svæðinu.