Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Píratar - úrslit í prófkjöri í fjórum kjördæmum

13.03.2021 - 17:32
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV
Kosningu lauk í prófkjöri Pírata í fjórum kjördæmum í dag. Fimm af sjö efstu í prófkjöri Pírata á fjórum kjördæmum eru sitjandi alþingismenn. Fyrrverangi þingmaður VG náði öruggu sæti miðað við úrslit síðustu kosningar en ekki fyrrverandi borgarfulltrúi. 

Kosningin var rafræn og lauk henni klukkan fjögur og úrslit lágu þá strax fyrir í höfuðstöðvum Pírata í Reykjavík og voru þau kynnt í kosningasjónvarpi á netinu. 

Eitt þúsund manns greiddu atkvæði. Í Alþingiskosningunum 2017 hlutu Píratar sex þingsæti; eitt í Suður-, eitt í Suðvestur-, tvö í Reykjavík norður og tvö í Reykjavíkurkjördæmi suður. 

Efst í prófkjörinu í Suðurkjördæmi varð Álfheiður Eymarsdóttir. Í Suðvesturkjördæmi varð Þórhildur Sunna Ævarsdóttir alþingismaður efst, en hún bauð sig síðast fram í Reykjavíkurkjördæmi suður. Kosið var saman í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur. Björn Leví Gunnarsson alþingismaður varð í efsta sæti. Halldóra Mogensen alþingismaður varð í öðru sæti. Fyrrverandi VG þingmaðurinn og núverandi Pírata þingmaðurinn Andrés Ingi Jónsson lenti í 3. sæti. Í fjórða sæti varð Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir. Halldór Auðar Svansson fyrrverandi borgarfulltrúi lenti í 5. sæti. 

Rafrænt prófkjör Pírata stendur yfir í Norðvestur- og Norðausturkjördæmi og lýkur eftir viku.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV
Úrslit prófkjörs voru kynnt í beinni útsendingu á netinu.