Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Opinber frumflutningur á lagi Daða í kvöld

Mynd: Birta Rán / RÚV

Opinber frumflutningur á lagi Daða í kvöld

13.03.2021 - 10:19

Höfundar

Framlag Íslendinga í Eurovision í ár verður frumflutt í fullum gæðum í þættinum Straumar sem er á dagskrá eftir fréttir í kvöld. Daði stefnir að því að tryggja Íslendingum að minnsta kosti þátttöku í úrslitum keppninnar, en vonandi líka sæti ofarlega á úrslitakvöldinu, með laginu 10 years.

Í kvöld verður sýndur á RÚV fyrsti þáttur Strauma, sem eru tónlistar- og skemmtiþættir um stefnur í tónlist og tíðaranda hérlendis og erlendis síðastliðinn áratug. Í þættinum í kvöld, sem hefst strax eftir fréttir, verður opinber frumflutningur á Eurovision-lagi Íslendinga sem nefnist 10 years og er í flutningi Daða Freys og Gagnamagnsins. Lag þeirra Think about things, sem að sjálfsögðu hefði sigrað keppnina í fyrra hefði hún verið haldin, fjallaði um dóttur Daða og Árnýjar konu hans og Gagnamagnsmeðlims. 10 years fjallar um samband þeirra Daða og Árnýjar sem varað hefur í tíu ár.

Eins og flestir vita var sjóræningjaútgáfu af laginu lekið á netið í vikunni. Lagið er komið í almenna dreifingu á netinu í lélegum gæðum og hefur verið birt á fjölmörgum síðum, bæði hér heima og erlendis.

Daði kvaðst í samtali við Síðdegisútvarpið í gær ekki vera stressaður yfir lekanum og segir hann til marks um gífurlegan áhuga á laginu. Þó sé aðeins frústrerandi að einhverjir óprúttnir aðilar hafi opinberað það áður en hann fékk tækifæri til þess sjálfur. „Pínu pirrandi að einhver annar ákveði að setja þetta á netið áður en ég get gert það, og að fólk sé að heyra þetta í fyrsta skipti í verri gæðum og ekki á mínum forsendum.“ Hann mælir eindregið með því að fólk standist freistinguna um að hlýða á sjóræningjaútgáfuna og hlusti á lagið í kvöld þegar það verður opinberlega frumflutt með lifandi tónlistarflutningi í þættinum Straumar.

Myndband við lagið er í smíðum og Daði bindur vonir við að það verði frumsýnt fyrir lok mánaðar. „En þetta er mikið verkefni svo ég þori ekki að lofa því.“

Mynd: RÚV / RÚV
GDRN flytur lag Daða, Hvað með það, sem hafnaði í öðru sæti í Söngvakeppninni 2017.

Einu getur hann þó lofað. Líkt og á síðasta ári verður Gagnamagnsdans við lagið sem hægt verður að læra. Á síðasta ári eins og frægt er varð dansinn við lagið svo vinsæll, líkt og auðvitað lagið sjálft, og fjölmargir birtu myndskeið af sér að taka sporin á helstu samfélagsmiðlum. Þeirra á meðal voru stjörnur, meðal annars Hollywood-leikkonan Jennifer Garner auk þess sem leikarinn Russell Crowe birti lagið á Twitter-reikningi sínum.

Daði kveðst alls ekki viss um að hann muni sigra keppnina en viðurkennir að hann verði svekktur ef við komust ekki í úrslitin. Þegar sá áfangi næst mun hann svo leyfa sér að stefna hærra og vonandi enda á toppnum. „Fókusinn er þar til að byrja með en ef við komumst þangað þá er fókusinn á eitthvað annað.“ Mikilvægt sé í bili að tryggja Íslendingum gott partý á laugardagskvöldinu með þátttöku í úrslitunum.

Meðal þeirra sem fram koma í þættinum í kvöld eru þau Salka Sól, Valdimar, Sigríður Thorlacius og GDRN sem flytur lagið Hvað með það? sem var framlag Daða og Gagnamagnsins í Söngvakeppninni árið 2017 og hafnaði í öðru sæti.

Straumar er á dagskrá á RÚV í kvöld klukkan 19:45.

 

Tengdar fréttir

Popptónlist

Nýja laginu hans Daða lekið: „Þetta er klár þjófnaður“

Menningarefni

Lagið frumflutt 13. mars — Keppnishugur í Daða

Tónlist

Daði undirbýr Eurovision: „Ég ætla að reyna að vinna“