Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Njáll Trausti vill leiða listann í norðausturkjördæmi

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks í norðausturkjördæmi, hyggst gefa kost á sér í oddvitasæti listans í kjördæminu. Þar var Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir síðustu kosningar, en hann hefur nú tilkynnt að hann hyggist hverfa af þingi.

Njáll Trausti er nú 6. þingmaður norðausturkjördæmis, hann var í 2. sæti listans fyrir síðustu kosningar og hefur setið á þingi frá árinu 2016.  Hann segir í samtali við fréttastofu að hann hafi tilkynnt um þessa ákvörðun sína á aðalfundi kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í norðausturkjördæmi í morgun. „Ég hef orðið var við mikinn stuðning,“ segir hann um viðbrögð við þessari ákvörðun hans.

Á fundinum var samþykkt að prófkjör verði um val í efstu sætin á lista flokksins og að það verði haldið 29. maí.