„Karlmennskuhugmyndir eru ótrúlega takmarkandi“

Mynd: RÚV / RÚV

„Karlmennskuhugmyndir eru ótrúlega takmarkandi“

13.03.2021 - 11:42

Höfundar

Þorsteinn V. Einarsson er kynjafræðingur, fyrirlesari, og heldur úti Karlmennskunni á Instagram. Hann ræddi við Indíönu Rós kynfræðing og Mikael Emil um hugmyndir um karlmennsku í hlaðvarpsþættinum Klukkan sex.

Þorsteinn byrjaði að fjalla um karlmennsku árið 2014 því hann vildi ná til þeirra sem voru eins og hann. Hann lýsir sjálfum sér þannig að hann hafi verið hinn týpíski gaur. Hann hafi ekki séð tilgang í því að berjast fyrir jafnrétti þar sem hann taldi að jafnrétti væri náð. Myllumerkið #karlmennskan náði síðan flugi á Twitter árið 2018 og þá fór boltinn að rúlla fyrir alvöru. Þorsteinn ákvað þá að fara í nám í kynjafræði og byrjaði með samfélagsmiðilinn Karlmennskuna, sem hefur verið vettvangur hans til að halda á lofti umræðu um karlmennsku. 

Staðalímynd karlmennsku gæti verið til dæmis verið karlar á stórum jeppum í miklum samkeppnis-kúltur en það er ekki endilega skaðleg karlmennska. „Í rauninni eru karlmennskuhugmyndir í sjálfu sér ótrúlega takmarkandi og á sama tíma skaðlegar.“ Þorsteinn segir að það sem sé skaðlegt sé þegar karlmennskan þvingi fólk í eitthvað sem það vill ekki, skerðir lífsgæði þess og annarra. Hugtakið eitruð karlmennska er því mjög afstætt og umræðan í kringum þetta mjög flókin. 

Hugmyndir um karlmennsku geta haft áhrif á sambönd og kynlíf. Þessar hugmyndir lita það hvernig hlutverk okkar eru í samböndum, til dæmis að strákurinn eigi að taka fyrsta skrefið og hafa yfirhöndina, stjórna og vera við völd, til að mynda í kynlífi. Bæling tilfinninga og að gangast ekki við tilfinningum sínum er ríkjandi í hugmyndum um karlmennsku og hefur því óneitanlega áhrif á samböndin okkar. Þessar hugmyndir eru svo rótgrónar, til að mynda að annar aðilinn í sambandi skuli hafa yfirhöndina og völdin og hafa jafnvel áhrif á hinsegin sambönd þar sem samkynja pör eru spurð hvor aðilinn sé eiginlega karlinn og hvor konan í sambandinu. 

Indíana Rós Ægisdóttir og Mikael Emil Kaaber fengu Þorstein V. Einarsson til sín og ræddu um karlmennsku í Klukkan sex. Þátturinn er aðgengilegur á UngRÚV.is og öllum helstu hlaðvarpsveitum.

Tengdar fréttir

Mannlíf

Ungmenni óhræddari við að ögra kynjatvíhyggjunni

Sjónvarp

Typpið fær nýtt hlutverk