Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Johnson segir grískar minjar í eigu Breta

13.03.2021 - 08:08
epa08298196 A handful of people view the Parthenon Marbles, commonly know as the Elgin Marbles, in an unusually empty British Museum in London, Britain, 16 March 2020. Several European countries have closed borders, schools as well as public facilities, and have cancelled most major sports and entertainment events in order to prevent the spread of the SARS-CoV-2 coronavirus causing the Covid-19 disease.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, þvertekur fyrir að afhenda Grikkjum marmarahöggmyndir frá Parþenon sem finna má í minjasafninu British Museum í Lundúnum. Johnson segir höggmyndirnar verða geymdar í Bretlandi um ókomna framtíð, þar sem þær hefðu verið teknar á lögmætan hátt.

Johnson greinir frá þessu í viðtali við gríska dagblaðið Ta Nea. Þar var hann spurður út í ummæli Kyriakos Mitsotakis, forsætisráðherra Grikklands, frá 2019 um að fá fornleifarnar lánaðar í tilefni þess að 200 ár eru frá sjálfstæðisstríði Grikkja á þessu ári. Johnson kvaðst skilja tilfinningar grísku þjóðarinnar til þessarra merku minja, en breska stjórnin standi fast á því að þær verði geymdar áfram í British Museum. Elgin lávarður hafi fengið þær með lögmætum hætti á sínum tíma og þær verði áfram í lögmætri eigu safnsins.

Segir lávarðinn rað-þjóf

Ekki eru allir sammála um lögmætið að sögn Guardian. Gríski menningarmálaráðherrann Lina Mendoni sagði í fyrra að Elgin lávarður væri rað-þjófur, sem hafi notað ólögmætar aðferðir til þess að komast yfir marmarann. Guardian hefur eftir Mendoni að hún sé með gögn sem sýna fram á að höggmyndirnar séu ólöglega í fórum British Museum. Hún segir augljóst miðað við orð Johnson í viðtalinu sem birtist í gær að hann hafi fengið rangar upplýsingar. Elgin lávarður hafi aldrei fengið leyfi með lögformlegum hætti til þess að láta taka höggmyndirnar úr Parþenon, og þar með séu þær ekki lögmætar eignir British Museum. 

Höggmyndirnar eru um 2.500 ára gamlar. Myndræman var um 160 metra löng, og þar af er rúmlega helmingurinn til sýnis í British Museum. Um fimmtíu metrar af myndræmunni eru í sýningarsal Akrópólis-safnsins í Grikklandi.

Frakkar sögðu já

Í opinberri heimsókn sinni til Frakklands árið 2019 óskaði Mitsotakis eftir því við franska starfsbróður sinn Emmanuel Macron að Frakkar skiluðu þeim hluta myndræmunnar sem var í Louvre-safninu. Þeirri bón var játað, þó safnstjórar Louvre í París hafi löngum litið á myndræmuna sem einhverjar þær verðmætustu minjar sem þar væri að finna. Í staðinn fékk safnið þó bronsmuni frá Grikklandi sem aldrei höfðu komið fyrir augu almennings áður, segir í Guardian.

Elgin lávarður komst yfir marmarahöggmyndirnar þegar hann var sendiherra Bretlands í Ottóman-veldinu. Hann skipaði þá svo fyrir um að myndræman yrði tekin úr Parþenon, eftir að hafa fengið leyfi frá her Ottóman-veldisins sem réði ríkjum í Aþenu á þeim tíma. Árið 1816 var myndræmunum komið til British Museum, eftir að Elgin varð gjaldþrota.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV