Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fyrrverandi forseti sakaður um hryðjuverk

epa08588584 Interim President of Bolivia Jeanine Anez participates in an event to mark the 195th anniversary of the country's independence in La Paz, Bolivia, 06 August 2020.  EPA-EFE/JAVIER MAMANI
Jeanine Anez . Mynd: EPA-EFE - EFE
Jeanine Anez, fyrrverandi forseti Bólivíu, segir yfirvöld hafa gefið út handtökuskipun gegn sér. Hún sýndi mynd af skipuninni á Twittersíðu sinni, með þeim orðum að pólitísk réttarhöld séu hafin í landinu.

Samkvæmt skipuninni er Anez gefið að sök að hafa átt þátt í að ræna völdum af Evo Morales, fyrrverandi forseta landsins. Skrifstofa ríkissaksóknara hefur enn ekki gert skipunina opinbera. Samkvæmt Anez er hún ákærð fyrir hryðjuverk, uppreisnaráróður og samsæri. Á handtökuskipuninni sem hún birti voru einnig nöfn fyrrverandi ráðherranna Rodrigo Guzman og Alvaro Coimbra. Bólivíska ríkissjónvarpið birti í gær myndir þar sem þeir voru handjárnaðir af lögreglu, að sögn AFP fréttastofunnar.

Anez tók við embætti forseta eftir að Morales missti stuðning bólivíska hersins. Endurkjöri hans var mótmælt harðslega haustið 2019, þegar fjórða kjörtímabil hans var í þann mund að hefjast. Það stangaðist á við stjórnarskrá Bólivíu, þar sem aðeins er löglegt að gegna forsetaembættinu í þrjú kjörtímabil. Morales flúði land ásamt fjölda ráðherra í stjórn hans og fleiri bandamönnum. Anez sat eftir sem æðsti þingmaður öldungadeildarinnar og var sett tímabundið í embættið.

Morales sneri aftur heim í nóvember síðastliðnum. Hann greip aftur um stjórnartaumana í Sósíalistahreyfingunni, sem hann átti þátt í að stofna á sínum tíma. 

Bólivíska þingið samþykkti í febrúar að veita þeim friðhelgi sem voru kærðir fyrir ofbeldi í óeirðunum í kjölfar afsagnar Morales. Sósíalistar eru í miklum meirihluta á þinginu eftir stórsigur hreyfingar Morales í þingkosningum í október í fyrra.