Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Flýja skjálftana: „Þetta er farið að taka á mann“

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Rúmlega 1900 skjálftar hafa mælst á Reykjanesskaganum frá miðnætti, nítján þeirra yfir þremur að stærð - sá stærsti upp á 4,6 í nótt. Svefnleysi er farið að hrjá marga Grindvíkinga og hafa sumir flúið ástandið.  Gunnhildur Björgvinsdóttir, ein þeirra segir erfitt að vera alltaf í viðbragðsstöðu. „Maður er bara orðinn út taugaður. Maður er alltaf í þessum ótta, og viðbragðsstöðu. Hvað gerist og þetta er farið að taka á mann.“

Svefnleysið farið að segja til sín

Gunnhildur og fjölskylda hennar er þó öllu vön. Maðurinn hennar flúði Vestmannaeyjagosið þegar hann var tólf ára. Nú eru þau Gunnhildur flúin með alla fjölskylduna á Hótel á Selfossi. 

„Við höfðum hjónin ekki viljað fara tvö á hótel um helgina, nema af því krakkarnir vildu koma með og barnabörnin. Ég er ekkert róleg að vita af þeim í Grindavík og ég einhvers staðar annars staðar.“

Gunnhildur segist ekki vera hrædd en svefnleysið er farið að segja til sín. Hún segist hrökkva upp við flesta skjálfta, óháð stærð þeirra. „Maður er bara alltaf á vappinu alla nóttina.“

Enda er ekkert lát á þessari hrinu, um tvö þúsund skjálftar hafa verið að mælast á sólarhring undanfarnar vikur.  „Maður hrekkur við í hvert skipti. Ég fékk svo í bakið núna á mánudaginn var. Ég vaknaði og er ekki bakveik. Ég hugsaði með mér Jesús minn þetta er bara út að jarðskjálftunum. Skrokkurinn er í henglum. En sem betur fer er ég orðin betri í því. En það er gasalegt að fá ekki svefninn sinn. Ég er ekki vön að sofa alltaf rosalega vel. En það er svakalegt.“

Erfitt að venjast skjálftunum

Gunnhildur og fjölskylda hennar er ekki sú eina sem þarf að hvíla sig á skjálftunum. „Það er aldrei hægt að venjast þessu, maður veit aldrei hvað það er stór skjálfti sem kemur. Það titrar allt svo lengi á eftir,“ segir Theodór Vilbergsson, Grindvíkingur.

„Maður er orðinn spenntur og ég finn það þegar ég vakna á næturnar við skjálfta að þá er ég svona í keng, þetta er mjög óþægilegt,“ segir María Benónýsdóttir, Grindvíkingur.