Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Velsældarvísum ætlað að greina lífsgæði Íslendinga

Mynd með færslu
 Mynd: pixabay.com
Undanfarin ár hefur jafnvægi milli vinnu og einkalífs aukist á Íslandi. Hlutfall þeirra sem skortir efnis- og félagsleg gæði minnkaði úr 5,8% árið 2014 niður í 2,9% árið 2018 en hlutfall lágra tekna hefur haldist stöðugt um 10% frá 2004 til 2018.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýjum velsældarvísum á vef Hagstofu Íslands. Þar má finna 39 mælikvarða sem ætlað er að varpa ljósi á hagsæld og lífsgæði Íslendinga yfir ákveðin tímabil.

Auk hefðbundinna mælinga gefur að líta þætti tengda loftgæðum, menntun og heilsu, svo dæmi séu tekin. Víða um heim hafa slíkir mælikvarðar verið þróaðir til að auka skilning á hvaða þættir tengist velsæld samfélaga og geri líf fólks betra.

Tæpt ár er síðan ríkisstjórnin samþykkti að nota velsældarmælikvarða og fól Hagstofunni að halda utan um verkefnið. Á vef forsætisráðuneytisins segir að sex velsældaráherslur hafi legið til grundvallar fjárlaga og fjármálaáætlunar.

Þær snerta meðal annars andlegt heilbrigði, öryggi í húsnæðismálum og betri samskipti við almenning.