Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Um 170 manns gistu á Laugarbakka í nótt vegna veðurs

12.03.2021 - 11:39
Mynd: RÚV / RÚV
Rúmlega 170 manns gistu á Laugarbakka í nótt eftir að vörubíll lokaði þjóðvegi eitt við Hvammstanga. Flestir fóru á Hótel Laugarbakka, sem var opnað í snatri, auk þess sem opnuð var fjöldahjálparstöð. Fjölmennar björgunarsveitir tóku þátt í aðgerðum. Vegurinn var opnaður í morgun.

Fjörutíu og fimm manns tóku þátt í aðgerðum

Björgunarsveitir voru kallaðar út á áttunda tímanum í gær til aðstoða bíla sem sátu fastir á þjóðvegi eitt við Hvammstanga. Þar hafði flutningabíll runnið til og sat fastur þvert yfir veginn. Bílar voru fastir beggja vegna við. Fjörutíu og fimm manns úr fjórum björgunarsveitum tóku þátt í aðgerðum. Ævar Smári Marteinsson er í aðaðgerðastjórn. „Upphaflega voru þetta bara þrír bílar sem voru fastir þarna. En svo kom í ljós þegar nær var komið að þetta voru einhvers staðar á milli 100 og 150 bílar sem voru orðnir stopp þarna og vörubíll sem þveraði veginn."

Fjöldahjálparstöð í félagsheimilinu

Ævar segir að ágætlega hafi gengið að aðstoða ökumenn og var öllum komið í skjól í gærkvöldi. Á Hvammstanga gistu fimmtán manns en flestir fóru á Laugarbakka. „Bæði er hótel á Laugarbakka, þar sem við komum fyrir alveg þó nokkrum mannskap, og svo var opnuð fjöldahjálparstöð í félagsheimilinu á Laugarbakka."

Voru margir þar?

„Þetta voru eitthvað á milli 10 og 20 í fjöldahjálparstöðinni og í heildinni sem gisti á Laugarbakka voru á milli 160 og 170 manns."

„Svo fengu allir grillaðar samlokur, franskar og kokteil"

Örn Arnarsson hóteleigandi hafði hraðar hendur og opnaði Hótel Laugarbakka í gærkvöldi. „Það var bara þannig, síminn byrjaði að hringja og bílar að streyma inn á bílastæðið hjá okkur og inn um hurðina."

Og þá var ekkert annað að gera en að kalla út kokk og búa um rúm?

„Já, já, það var bara þannig, það var bara hringt á alla sem voru á staðnum gátu komið þannig að þetta var ansi magnað. Fólk var mjög ánægt já og bara fegið að komast í skjól og í rúm svo fengu allir grillaðar samlokur, franskar og kokteil þannig að það voru öll börn með fulla maga og fullorðnir líka."

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Við Hótel Laugabakka í nótt