Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Þingmenn um Baldur: Úrelt skip og stórhættulegt mál

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson er komið með Breiðafjarðarferjuna Baldur í tog. Baldur vélarvana úti á Breiðafirði. Tekið úr þyrlu Landhelgisgæslunnar
 Mynd: Landhelgisgæslan - Aðsent
Fimm þingmenn Norðvesturkjördæmis lýstu miklum áhyggjum af stöðu samgangna á Vestfjörðum og öryggi sjófarenda vegna bilunar í Breiðafjarðarferjunni Baldri. Þingmennirnir tóku til máls í umræðu um störf þingsins við upphaf þingfundar á Alþingi. Þingmennirnir fimm sögðu að núverandi skip hentaði illa til flutninganna, öryggi væri ekki nægilega vel tryggt og að samgöngur við sunnanverða Vestfirði væru í mikilli tvísýnu.

Allar leiðir lokaðar

„Það var skuggalegt að vita af ferjunni Baldri damlandi úti á miðjum Breiðafirði vélarvana í nótt í þræsingsveðri og það er ekki enn búið að ná stjórn á aðstæðum,“ sagði Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar. Hann sagði að allar leiðir til og frá sunnanverðum Vestfjörðum hefðu lokast þegar Baldur bilaði, ekki hefði verið flogið í tvo daga og ófært hefði verið um Klettsháls.

Guðjón benti á að þetta væri ekki í fyrsta skipti sem Baldur bilaði og að heimamenn hefði krafist tryggari siglinga en hægt væri að bjóða með Baldri. Og á sama tíma væri á þriðja tug fólks á vélarvana skipi úti á Breiðafirði. Guðjón lagði áherslu á að haldið yrði áfram að sigla yfir Breiðafjörð og að það yrði gert á nýju skipi.

Algjörlega óásættanlegt

„Ferjan Baldur flýtur vélarvana á Breiðafirði með tæplega 30 manns innanborðs. Aðstæður á vettvangi hafa verið krefjandi vegna veðurs en það er varðskip og dráttarbátur komin að ferjunni og eru að koma henni að landi og þá verða farþegar komnir heilir í höfn eftir sólarhringsferð,“ sagði Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins

Halla Signý sagði Baldur hafa sinnt mikilvægu hlutverki í samgöngum á Breiðafirði og við sunnanverða Vestfirði. Ferjan hefði verið kölluð brúin yfir til Vestfjarða. „Í gær voru allar leiðir til og frá Vestfjörðum lokaðar, þar sem heiðar voru ófærar og flug lá niðri. Þetta stef er kunnuglegt á vetrum og þetta óöryggi í samgöngum er algjörlega óásættanlegt.“ Halla Signý sagði ferjusiglingar áfram mikilvægar bæði vegna fólksflutninga og fiskútflutnings. Hún sagði núverandi Baldur löngu orðinn úreltan til að sinna þessum siglingum. Úr því yrði að bæta og fá skip með tveimur vélum.

Stórhættulegt mál

Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins, sagði að þetta væri þriðja alvarlega bilunin í Baldri á jafn mörgum árum. Hann kvaðst áður hafa lýst áhyggjum af skipinu og öryggi samgangna við Breiðafjörð. „Þetta er 44 ára gamalt skip með eina aðalvél sem er í raun og veru bannað að vera með í svona ferjum. Hann er á undanþágu með þennan búnað. Það fást ekki varahlutir í svona vél með góðu móti. Þetta er mjög bagalegt ástand,“ sagði Sigurður Páll og brýndi fyrir stjórnvöldum að setjast strax niður og undirbúa kaup á nýrri ferju. „Þetta er stórhættulegt mál að vera með slíkt skip í ferðum.“

28 manns í vélarvana skipi í slagviðri

Það er gott að ekki fór verr þegar Breiðafjarðarferjan Baldur varð vélarvana í vonskuveðri á Breiðafirði í gær með farþega og flutningabíla og annan verðmætan farm. Ekki var hægt að koma ferjunni til hafnar í gær og í nótt sváfu 28 manns um borð, þar á meðal börn, rétt sunnan við Bjarneyjar í Breiðafirði í leiðinda slagviðri,“ sagði Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri-grænna.

Hún sagði ítrekað hafa verið bent á óöryggið sem fælist í því að hafa aðeins eina aðalvél. Hún sagði ábyrgð ríkisvaldsins mikla. Í gær hefðu allar leiðir til sunnanverðra Vestfjarða verið lokaðar. Lilja Rafney sagði mikilvægi siglinga hafa aukist með auknum fjölda ferðamanna og stórauknu fiskeldi. Lilja Rafney sagði eins og aðrir þingmenn í umræðunni að tryggja þyrfti nýtt skip til siglinganna.

Brýna samgönguráðherra til góðra verka

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði þingmenn kjördæmisins hafa átt fund með stjórnendum Vegagerðarinnar um málefni Baldurs og samgöngur við Breiðafjörð og á sunnanverðum Vestfjörðum. Hann sagði það verða að vera forgangsatriði stjórnvalda að taka á þessum málum. „Við brýnum samgönguráðherra í dag til góðra verka,“ sagði Haraldur. „Þetta þarf og verður að vera síðasta bilunin á því skipi því á þessu viðkvæma hafsvæði er það aðeins tilviljun að ekki fer illa að sigla á ferju sem er aðeins með eina vél.“

Uppfært 11:25 með upplýsingum um ræðu Haraldar Benediktsson sem talaði eftir að upphafleg gerð fréttarinnar birtist.