„Smáskammtur af gáfumannaræpu í bland við sprell“

Mynd: Straumar / RÚV

„Smáskammtur af gáfumannaræpu í bland við sprell“

12.03.2021 - 10:12

Höfundar

Nýir tónlistar- og skemmtiþættir hefja göngu sína á RÚV á laugardag þar sem lag Daða og Gagnamagnsins í Eurovision verður frumflutt.

Straumar eru nýir tónlistar- og skemmtiþættir um strauma og stefnur í tónlist og tíðaranda hérlendis og erlendis á síðastliðnum áratugum. Fyrsti þátturinn verður sýndur á RÚV á laugardag eftir fréttir.

Í þáttunum verða hin og þessi tímabil í popp- og dægurmenningarsögunni  tekin til skoðunar í tónum og tali. Stjórnendurnir, Björg Magnúsdóttir og Freyr Eyjólfsson, lýsa þeim sem góðu og fræðandi partíi. „Smáskammtur af gáfumannaræpu í bland við sprell.“

Gefum þeim brauð og leika

Fyrsti þátturinn sker sig þó örlítið úr þar sem einblínt verður á sögu Eurovision. „Það er af ýmsu að taka, þessi keppni hefur verið í sjónvarpinu frá 1956  og byrjar út frá ákveðnu ástandi í Evrópu sem hafði logað í heimsstyrjöldum og veseni. Þá ákváðu leiðtogarnir að það þyrfti að koma með eitthvað skemmtilegt inn í líf álfunnar og þá var búin til söngvakeppni svo fólk færi að dansa og syngja saman,“ segir Björg.

„Evrópa er mesta stríðssvæði mannkynssögunnar. Hrikalega blóðugur vígvöllur,“ bætir Freyr við. „Eins og Rómverjar sögðu, gefum þeim brauð og leika. Það er búið að hlaða í eina risastóra friðarpípu. Það er Eurovision. Það má ekki vera nein pólitík í Eurovision en það er mjög mikil pólitík og skýr pólitískur tilgangur með Eurovision.“

Enginn bilbugur þrátt fyrir þjófnað

Rúsínan í pylsuendanum er flutningur á framlagi Íslands í keppninni í ár, lagið 10 Years með Daða og Gagnamagninu. Það er engan bilbug á hópnum að finna þrátt fyrir að laginu hafi verið stolið og dreift um internetið. „Þetta er einhver léleg útgáfa af laginu,“ segir Björg. „Einhver umhverfishljóð og spænskur krakki öskrandi.“  Á morgun verði lagið frumflutt í sinni réttu útgáfu. „Daði er hinn rólegasti. Hann er náttúrulega leiðtoginn í þessu öllu saman þannig að við lítum til hans. Hann er bara slakur yfir þessu.“ 

Að Eurovision slepptu taka við þættir sem rista djúpt í valin tímabil í tónlistarsögunni. „Þá taka við tónlistarnördaþættir, þar sem tekinn er fyrir ákveðinn áratugur,“ segir Freyr. „Hvernig tónlistin og dægurmenningin litaði samfélagið og öfugt. Það er verið að kafa djúpt ofan í þetta og skoða frá ýmsum sjónarhornum. Það er ekki verið að skoða bara tónlistina heldur bíla, mat og hús.“

Tengdar fréttir

Popptónlist

Nýja laginu hans Daða lekið: „Þetta er klár þjófnaður“

Tónlist

Man eftir að hafa fengið fljúgandi spólur í andlitið

Tónlist

„Ég hef reynt að segja þeim að þetta sé of flókið“

Sjónvarp

„Ég kyssti hana líka, bara svo það sé á hreinu“