Írar og ESB treysta ekki Bretum
Orðið ,,traust“ heyrist sífellt í umræðum um samband Breta og Evrópusambandsins. Simon Coveney utanríkisráðherra Íra er í hópi þeirra sem telja Bretum vart treystandi. Vandinn er, sagði Coveney í viðtali við írska ríkisútvarpið fyrir helgi, að nálgun bresku stjórnarinnar hefur breyst. Ekki í fyrsta skipti, taldi hann, að ESB þætti það eiga í samningum við aðila sem það gæti ekki treyst.
Gove og Sefcovic reyndu að skapa traust og leysa mál
Eftir að viðskiptasamningur Breta og ESB tók gildi um áramótin átti Michael Gove undirráðherra í forsætisráðuneytinu að sjá um sambandið við ESB. Hann og Maros Sefcovic varaforseti framkvæmdastjórnar ESB þóttu mjög lausnamiðaðir og samtaka um að endurskapa traust. Mörg óleyst mál, til dæmis ýmislegt tengt vöruflutningum.
Einhliða ákvörðun Breta reitir Íra og ESB til reiði
Tilefni viðtalsins við Coveney var einhliða ákvörðun Breta í síðustu viku að framlengja um hálft ár umsaminn þriggja mánaða aðlögunartíma í vöruflutningum milli Bretlands og Norður-Írlands. Vissulega ekki stórvægilegt mál og sem bæði ESB og Írar segja að hefði mátt leysa í sameiningu.
Ný nálgun með nýjum ráðherra
Coveney var þarna spurður hvort Bretar hefðu skipt um aðferð eftir að David Frost, breski embættismaðurinn, sem hafði leitt viðskiptasamningana við ESB, tók við hlutverki Gove.
Samningamaðurinn verður ráðherra
Frost átti að taka við sem öryggisráðgjafi bresku stjórnarinnar nú í lok janúar. Theresa May fyrrum forsætisráðherra mótmælti því opinberlega að Frost, reynslulaus í öryggismálum, fengi starfið. Nokkrum dögum áður en Frost átti að taka við nú í janúar, var annar maður skipaður.
Í staðinn fékk Frost heldur illa skilgreint starf sem tengiliður við ESB. Þar til nú nýlega að tilkynnt var að embættismaðurinn Frost settist á ráðherrabekk með þá uppgáfu að stýra framkvæmd viðskiptasamningsins og semja um óútkljáð mál.
Frost frægur fyrir ögrun frekar en samvinnu
Sem samningamaður hafði Frost orð á sér fyrir ögrandi nálgun og var vart sestur í stólinn að sambandið við ESB rataði í fréttirnar. Coveney vildi þó ekki taka undir að þetta væri allt Frost að kenna en jú einhliða ákvörðunin reyndar tekin rétt eftir að Frost tók við nýja embættinu. Já, áður en Frost svo mikið sem ræddi við Sefcovic, sinn helsta tengil í ESB. Ekki ofsagt, sagði Coveney að þetta sýni algjöran skort á virðingu.
Ráðherra segir ákvörðunina löglega en getur ekki bent á heimildina
Í vikunni var Brandon Lewis Norður-Írlandsráðherra kallaður í þingið til að svara spurningum þingmanna um þessa einhliða ákvörðun. Lewis sagði hana lögleg en gat aðspurður ekki nefnt hvar heimildina væri að finna. Connor McGinn þingmanni Verkamannaflokksins á Norður-Írlandi var heitt í hamsi.
Reiður norður-írskur þingmaður: heldur ráðherrann að Norður-Írar séu vitleysingar
McGinn spurði hvort ráðherrann héldi að fólk á Norður-Írlandi væri vitleysingar. Stjórnin hefði staðhæft að það yrðu aldrei landamæri milli Bretlandseyja og Norður-Írlands en síðan samþykkt slík landamæri. Þá látið eins og þau væru ekki til en ef þau væru til þá hefðu þau engin áhrif. Nú segði stjórnin að jú reyndar, þarna væru landamæri en við gætum bara leitt þau hjá okkur. Hvort stjórnin gæti nú vinsamlegast hætt að líta á fólk sem einhver fífl. Það þyrfti stefnu.
Sagan að baki reiðilestri McGinns
Rakning McGinns vísar í að Boris Johnson forsætisráðherra hjó á Brexit-hnútinn, sem forverinn May megnaði ekki að leysa í sínum Brexit-samningum við ESB. Enginn breskur forsætisráðherra myndi samþykkja landamæri milli Írlands og Bretlandseyja, sem Johnson svo samþykkti. En rétt eins og McGinn benti á þá hefur stjórnin þráast við að viðurkenna þýðingu þessararafdrifaríku ákvörðunar.
Í þingumræðunum benti Tom Tugendhat þingmaður Íhaldsflokksins á að einmitt þennan sama dag væru Coveney og Sefcovic að funda með Joe Biden Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu en nei, enginn fulltrúi Breta þar. Smá áminning um að Biden er kannski hliðhollari Írum og ESB en Bretum.
Umdeild ákvörðun, óumdeildar vinsældir
Samband Breta og ESB er nú við frostmark einmitt þegar báðir aðilar þyrftu að vinna saman að lausn mála, sem varða afkomu milljóna manna. Í bráð þarf breska stjórnin ekki að hafa áhyggjur af stöðu sinni heima fyrir. Samkvæmt nýrri skoðanakönnun nýtur Íhaldsflokkurinn 45 prósenta fylgis, 13 prósentustigum umfram Verkamannaflokkinn.