Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Rannsókn hafin á Samherja í Færeyjum

12.03.2021 - 12:36
Úr heimildaþætti Kringvarpsins um Samherjaskjölin.
 Mynd: Kringvarpið
„Mín fyrsta hugsun var: Hér er skítamál á ferðinni,“ sagði Eyðun Mørkøre, yfirmaður færeyska Skattsins, aðspurður um þær fréttir að Samherji hafi misnotað sér skattareglur í Færeyjum til þess að komast hjá skattgreiðslum í Namibíu. Færeysk skattayfirvöld hafa formlega hafið rannsókn á mögulegum skattalagabrotum Samherja í Færeyjum.

„Ekki ólíklegt að málið endi hjá lögreglu“

Málið kann þó að verða rannsakað vegna gruns um annað en skattalagabrot, þar sem grunur leiki á að yfirvöld hafi verið blekkt með röngum upplýsingum.
„Það er enn ekki tímabært að gefa sér neitt um niðurstöðu en það er ekki ólíklegt að málið endi hjá lögreglu.“

Eyðun var gestur fréttaþáttar færeyska sjónvarpsins, Dagur & Vika, á fimmtudagskvöld. Þar brást hann við heimildarmyndinni Teir ómettiligu, sem sýnd var í Færeyjum síðastliðin þriðjudag. Í myndinni sem unnin var í samstarfi við Wikileaks og Kveik, var sagt frá sérkennilegum peningatilfærslum frá tveimur namibískum útgerðum Samherja, til Samherjafélagsins Tindhólms í Færeyjum árin 2016-2017.

Sagði Samherja geta verið „í djúpum skít“

Hálf milljón bandaríkjadollara fór á þessum tíma til færeyska félagsins frá Namibíu. Í viðtali sagði Jóhannes Stefánsson, fyrrum framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, að um hefði verið að ræða ólöglega fléttu sem miðaði að því að komast hjá því að greiða skatta af launum íslenskra sjómanna á togurum Samherja í afríku.

Ný lög sem sett voru í Namibíu 2016 hertu mjög á því að erlendir sjómenn skyldu greiða skatta af tekjum sem aflað væri í Namibíu. Það hafi orðið til þess að innan Samherja sáu menn fram á að þurfa jafnvel að bæta sjómönnum upp tekjutap, sem skattlagning í Namibíu yrði. Sú hugmynd að nýta sér hagstæðar skattareglur Færeysku skipaskrárinnar, hafi því verið tekin.

Aðalsteinn Helgason, fyrrverandi stjórnarmaður og framkvæmdastjóri hjá Samherja, vísaði til þess að nauðsynlegt væri að finna lausn á setningu namibísku laganna í tölvupóstsamskiptum milli Aðalsteins og fleiri háttsettra Samherjamanna, í mars 2016.  Ellegar gæti Samherji verið í „djúpum skít“ eins og Aðalsteinn orðaði það.

Aðvörun sem Arna McClure lögfræðingur Samherja svaraði með því að segjast ætla að hafa samband við „Færeyjar“ og tvo af þremur stjórnarmönnum félagsins Tindholms, sem stuttu síðar fór að fá greiðslur frá Namibísku útgerðum Samherja.

Sjómaður í Namibíu skráður á flutningaskip í Færeyjum

Færeyingar hafa haldið úti svokallaðri alþjóðlegri skipaskrá síðan árið 2005. Það þýðir að hægt er að skrá þar skip sem sigla þó alls ekki frá Færeyjum, nema að nafninu til. Skattalegt hagræði fylgir einnig. Til dæmis fá útgerðir 100% af greiddum sköttum áhafna slíkra skipa endurgreiddan. Þetta á þó eingöngu við um farskip, flutningaskip, fraktara, tankskip og gámaskip. Ekki fiskiskip.

Eins og fram kom í Fréttum RÚV á þriðjudag, hefur íslenskur sjómaður sem var við störf á togara Samherja í Namibíu, á sama tímabili, staðfest að hafa fengið laun sín greidd frá færeyska félaginu Tindholmi. Gögn sem Kveikur hefur skoðað, staðfesta það. Til þess að geta fengið launin greidd í Færeyjum, og nýtt sér skattfríðindi skipaskrárinnar þarlendu, varð hins vegar að skrá sjómennina á farskip. Það voru togararnir í Namibíu ekki. Engu að síður sagðist sjómaðurinn hafa verið skráður á flutningaskip sem Samherji átti og skráð var í Færeyjum.

Allt í þeim tilgangi að geta fengið greidd laun í Færeyjum. Um borð í flutningaskipið kom hann þó aldrei, hvað þá sigldi því eins og skráningin hafi gefið til kynna. Allt var það sjónarspil í því skyni að nýta sér færeysk skattalög, til þess að komast undan namibískum, að sögn sjómannsins, sem vildi ekki koma fram undir nafni. Hann sagði yfirmenn sína hjá Samherja hafa sett upp þetta fyrirkomulag, og fullyrt við sig að það væri allt í samræmi við lög.
Færeyskur skattasérfræðingur sem rætt var við í heimildarmynd færeyska sjónvarpsins sagði lögbrot felast í þessum gjörningi Samherja.

Ólöglegt sé að veita rangar upplýsingar í því skyni að afla sér fríðinda eins og felist í skattalöggjöfinni færeysku. Tjónið af brotunum lendi þó ekki á færeyskum ríkissjóði, þar sem endurgreiddir skattar sem fást úr úr því að greiða launin í Færeyjum, hafi aldrei átt að greiðast þar. Færeyjar komi því út á núlli.

Því sé ólíkt farið í tilfelli Namibíu. Þar sé teknanna aflað og því hafi átt að greiða skattana þar.

Taldi eigendur Samherja hafa blekkt sig

Forsvarsmenn Samherja hafa ekki tjáð sig um málið eða svarað fyrirspurnum færeyska Kringvarpsins. Lögmaður sem unnið hefur fyrir Samherja í tæp þrjátíu ár í Færeyjum og setið í stjórnum fjölda félaga Samherja í Færeyjum, meðal annars félaginu Tindhólmi, sagðist í viðtali við Færeyska sjónvarpið á dögunum koma af fjöllum þegar upplýsingarnar voru bornar undir hann.
Hann gerði þó ekki ágreining um réttmæti ásakanana en gekkst við því að hafa í raun stýrt félaginu til málamynda.

Hann taldi eigendur Samherja jafnframt hafa blekkt sig með því að upplýsa hann ekki um hvað færi fram í félaginu, enda hefði hann áður upplýst endurskoðendur Samherja á Íslandi um það að nákvæmlega þessi leið til að greiða sjómönnum á fiskiskipum í afríku, væri ekki lögleg.

helgis's picture
Helgi Seljan
Fréttastofa RÚV
adalsteinnk's picture
Aðalsteinn Kjartansson
Fréttastofa RÚV