Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Nokkrir foreldrar hafa tekið börn sín úr Fossvogsskóla

12.03.2021 - 13:40
Fossvogsdalur, útivistarsvæði, útivist, göngustígar, leiktæki, hjólastígar. Leiksvæði.
 Mynd: Reykjavíkurborg - Aðsend mynd
Foreldrar barna við Fossvogsskóla furða sig á að skýrsla Verkís um stofu 8 í skólanum skuli ekki enn hafa verið birt. Þar koma fram upplýsingar frá Náttúrufræðistofnun Íslands þess efnis að sveppinn kúlustrýnebba sé þar að finna í meira umfangi en búist var við.

Því telji foreldar tilefni fyrir skólastjornendur að velta því fyrir sér hvort ekki þurfi að loka stofunni. Skólastjóri Fossvogsskóla hefur boðið foreldrum að skoða skólann í næstu viku og skoða hann með eigin augum.

Næstkomandi miðvikudag, þann 17. mars, hefur verið boðað til upplýsingafundar um húsnæðismál skólans.

Í bréfi skólastjóra til foreldra kemur fram að þeir sem komið hafi að uppbyggingarstarfi í húsnæðismálum skólans flytji framsögur og í kjölfarið spyrji foreldrar og ræði um stöðu þeirra mála.

Vilja að menguðum stofum sé lokað

Færa átti börn í þriðja bekk í stofu 8 meðan viðgerð stendur yfir á skólastofu þeirra. Í skýrslu Verkís segir að gólfdúkur hafi verið fjarlægður, ílögn brotin upp, hreinsað með viðeigandi efnum, lagt í aftur og dúklagt að nýju. 

Við síðari mælingu greindist enn hækkun, þótt búið væri að skipta um dúk og ekki mældist raki. Í umsögn skoðunarmanns segir að mikilvægt sé fyrir hann að fá upplýsingar um hvar börnin finni fyrir óþægindum. Í framhaldi segir skoðunarmaður að skoða beri rýmin gaumgæfilega. 

„Við viljum að öllum stofum sé lokað þar sem finnast kúlustrýnebba og litafrugga, þar til nánari úttekt og lagfæringar hafa farið fram,“ segir Magnús Pálmi Örnólfsson, faðir stúlku í Fossvogsskóla í samtali við fréttastofu. 

Hann segir að eftir á hyggja hafi elsti sonur hans verið með sterk einkenni meðan hann lærði við skólann. „Af hverju treystum við ekki vísindamönnunum í þessu máli? Af hverju bregðumst við ekki við eins og Kópavogur?“ 

„Einhver hlýtur að hafa sagt Reykjavíkurborg að miklar líkur væru á að losna við mygluna með því að verja hálfum milljarði í viðbrögð við myglunni.“ Magnús kallar eftir að brugðist verði rétt við næst þegar svona kemur upp. 

Að sögn Sigríðar Ólafsdóttur, móður drengs við skólann, hafa nokkrir  foreldrar hætt að senda börn sín í skólann eða bannað til að fara inn í þessar stofur að svo komnu máli.

„Smíðastofan er til dæmis beint fyrir neðan stofu 8 og mikill sveppavöxtur í sama horni á báðum hæðum.“

Dóttir Magnúsar hefur ekki mætt í tíma í þeim stofum þar sem henni hefur liðið hvað verst. Hann telur að skólastjórnendur séu að gera sitt allra besta til að koma málinu í höfn. „Það þarf að snúa röngum ákvörðunum í málinu við.“

Mismunandi viðbrögð við myglu í skólum

Magnús Pálmi rekur í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag nokkur dæmi um grunnskóla á Íslandi þar sem myglusveppur hefur fest rætur. 

Magnús rifjar upp að í febrúar 2017 hafi miklar rakaskemmdir og mygla uppgötvast í Kársnesskóla í Kópavogi og að tvö hundruð nemendur hafi verið fluttir milli húsa.

Svo fór að lokum að tillaga starfshóps um að skólinn skyldi rifinn var samþykkt og nú hefur hann verið jafnaður við jörðu. Mygla uppgötvaðist i Álfhólsskóla i Kópavogi nú í mars og þegar tekin ákvörðun um að loka einni álmu skólans.

Svipað var uppi á teningnum í Grundaskóla á Akranesi þegar rakaskemmdir komu upp nýverið. Þá var tveimur þriðju hlutum skólans lokað og starfsemi hans dreift um bæjarfélagið.

„. Og það er ekki eins og börnin hafi gleymst. Það er búið að funda um málið. Og skipa nefnd. Eða voru það tvær nefndir?“ 

Samfélagslegur kostnaður vegna myglu verulegur

Í skrifum þeirra Eiríks Ástvalds Magnússonar og byggingaverkfræðings og Sylgju Daggar Sigurjónsdóttur líffræðings sem starfa hjá verkfræðistofunni Eflu kemur fram að samfélagslegur kostnaður vegna rakamála geti numið tíu milljörðum á ári.

Þar vitna þau í skrif Ólafs H. Wallewik hjá Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins. Þau segja vitneskjuna um hvernig koma megi í veg fyrir rakavandamál vera til staðar en að miðla þurfi henni áfram til allra þeirra sem starfa við byggingariðnað.

Mygla getur vaxið í húsnæði þar sem vatn nær að liggja í meira en tvo sólarhringa eða raki hefur myndast. Kjöraðstæður eru við hitastig að 38 gráðum og þar sem æti er að finna.

Vitað er að þar sem rakaskemmdir er að finna megi búast við meira af ákveðnum tegundum myglusveppa en annars staðar.

Sylgja Dögg sagði í samtali við fréttaskýringaþáttinn Kveik í nóvember síðastliðnum að faraldsfræðilegar rannsóknir sýndu fram á að líkur aukast á ákveðnum kvillum í rakaskemmdu húsnæði.

Í sama þætti staðfesti Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, doktor í sveppafræðum hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, að myglusveppir geti verið stórhættulegir.

Veikindi geta orðið mjög alvarleg

Veikindi vegna myglu lýst sér í upphafi sem venjulegt kvef eða ofnæmiskast með hnerra, pirringi og kláða í húð, höfuðverk og augnrennsli.

Þegar á líður geta komið fram alvarleg einkenni á borð við þyngdartap og hárlos, síþreytu, sýking í ennisholum, minnistap og jafnvel sár á líkama.

Guðríður Gyða segir að ekki dugi að drepa sveppi heldur verði að hreinsa hann brott því hann geti valdið áfram heilsutjóni og mengun innanhúss.

Ásta Guðjónsdóttir, ein af stofnendum hagsmunasamtaka um tengsl heilsu við raka og myglu GRÓ sem nú heitir SUM, segir að baráttan við mygluna hafi verið henni erfið en um árabil bjó hún í húsi sem var illa farið af myglu.

Fljótlega eftir að hún keypti íbúðina fór hún að finna fyrir höfuðverk og smám saman versnuðu einkennin, hún glímdi við nýrnavandamál, taugakerfið, sjónin og heyrnin tóku að gefa sig. Annað heimilisfólk veiktist einnig illa.

Hún var greind með ýmsar gerðir gigtar og læknar sögðu henni að starf hennar sem dagmóðir hefði orðið til að valda henni síþreytu. Börnin sem hún var með tóku einnig að veikjast.

Hún segir að nú sé svo komið að ýmislegt í nærumhverfi valdi henni óþægindum því myglugróin hafi brotið niður ónæmiskerfi hennar að hluta. Hún býst við að það muni fylgja henni ævina á enda.

Ásta segir fjölda fólks í svipaðri stöðu en jafnvel sé svo að mörg hver viti ekki hvað er að hrjá þau.

Ásta kveðst hafa heimsótt Fossvogsskóla árið 2014 og hafi þá fundið fyrir mjög sterkum einkennum sem tengjast myglu og sjáanlegar rakaskemmdir. Hún hvetur foreldra til að taka börn sín úr þeim skólum þar sem myglu er að finna, það sé á ábyrgð foreldra að koma börnum sínum úr því umhverfi. 

Opinber umræða um myglu hefur aukist

Grétar Jónasson, lögfræðingur og framkvæmdastjóri Félags fasteignasala, segir klárt að mikil vakning hafi orðið í umræðu um myglu í húsnæði undanfarin ár.

Opinber umræða sé orðin mikil og því rati fleiri mál tengd myglu inn á borð félagsins en gerð fyrir áratug eða fimmtán árum. Oft finnist mygla í húsum þegar kaupendur fara í endurbætur og framkvæmdir, og einkennandi sé að seljendur vissu ekki um tilvist myglunnar.

Grétar segir þetta oft vera erfið mál en til séu nokkrir dómar sem tengjast ágreiningsmálum vegna rakaskemmda og myglu.