Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Nokkrar tafir við að komast flugleiðis norður í gær

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Röð atvika varð til þess að farþegar með Air Iceland Connect frá Reykjavík til Akureyrar þurftu að bíða lengi í gær eftir því að komast endanlega af stað frá Reykjavíkurflugvelli. Bilun varð í jafnþrýstibúnaði Bombardier Q400 vél félagsins skömmu eftir flugtak þannig að snúa þurfti henni við.

„Engin hætta var á ferðum en það er alltaf leiðinlegt þegar svona gerist. Við biðjum farþega velvirðingar á því sem átti sér stað,“ segir Ásdís Ýr Pétursdóttur upplýsingafulltrúi. 

Í lýsingum farþega segir að vélin hafi misst hæð þegar jafnþrýstibúnaðurinn bilaði þegar ferðin norður var um það hálfnuð. Flogið hafi verið lágflug til Reykjavíkur í mikilli ókyrrð en þegar þangað var komið hefðu nokkrir farþegar ákveðið að halda ferðalaginu ekki áfram. 

Ásdís Ýr segir að þurft hafi að skipta um farkost yfir í minni Bombardier flugvél. Hún segir tíma hafa tekið að leysa úr þeirri breytingu sem gera þurfti á farþegalistanum og starfsfólk hafi gert sitt besta við að leysa hratt úr málum.

Þegar síðari vélin átti að leggja af stað fór annar hreyfill hennar ekki í gang. Ásdís Ýr segir rafhleðslutæki á jörðu niðri hafa bilað meðan á tilraun til gangsetningar stóð. Hún tekur sérstaklega fram að sú flugvél hafi ekki verið biluð.

Farþegar segjast hafa beðið í opinni flugvélinni meðan á hleðslunni stóð, og að þeim hafi verið afar kalt alla leiðina norður. Farþegi segist hafa beðið í flugvélinni í um 40 mínútur. 

Ásdís Ýr harmar að fólkið hafi þurft að bíða í vélinni en hefur eftir flugfreyju að farþegar hafi almennt haft skilning á aðstæðunum. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV