Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Lifðu af hamfarir og halda partí

Mynd: - / Tjarnarbíó

Lifðu af hamfarir og halda partí

12.03.2021 - 15:50

Höfundar

Fimm manna fjölskylda lifði af hamfarir og býr nú á botni sundlaugar. Hún slær upp partíi með skemmtiatriðum, soðnum pulsum og harmi. 

Einhvern veginn þannig hljómar upplegg leikritsins The Last Kvöldmáltíð, sem nú er sýnt í Tjarnarbíói. Verkið er eftir Kolfinnu Nikulásdóttur og því leikstýrir Anna María Tómasdóttir „Þetta er heimsendasýn. Verkið gerist eftir hrun mannlegs samfélags og það eru hugsanlega bara 5 manneskjur eftir á jörðinni og við fylgjumst með þeim á botninum á sundhöll í Reykjavík. Ætla þau að byrja upp á nýtt, ætla þau að bjarga sér eða er þetta búið?,“ spyr Anna María.

Annar Miklihvellur

Þetta er fyrsta leikverk Kolfinnu Nikulásdóttur sem ratar á svið, en hingað til hefur hún einbeitt sér að leikstjórn. „Þetta er ég að ímynda mér hvað yrði eftir menningarlega og strúktúrlega samfélagslega ef það skellur á annar Miklihvellur og rústar öllu,“ segir hún. 

Meðal þeirra sem fara með hlutverk í sýningunni er Helga Braga Jónsdóttir, sem stígur nú á leiksvið í fyrsta sinn í nokkur ár. „Þau eru að halda hátíð og það er rosalegt stuð. Það sem mér finnst svo skemmtilegt við þetta verk að það er svo flott teygja í því. Það er þetta drama en leyfir sér að brjótast út úr þessu formi og inn í framtíðina.“ segir hún. 

Með önnur hlutverk fara Albert Eiríksson, Ásthildur Úa Sigurðardóttir, Helga Braga Jónsdóttir og Ragnar Ísleifur Bragason. 
Leikmynd hannar Brynja Björnsdóttir, búningar voru á herðum Brynju Skjaldardóttur, ljósahönnun annast Ólafur Ágúst Stefánsson
og Salka Valsdóttir semur tónlist verksins. 

Ibsen á sterum

Ólafur Ásgeirsson leikur son Helgu í verkinu. „Mér finnst þetta í raun vera mjög hefðbundið leikrit. Þetta er svona eins og Ibsen á sterum,“ segir hann. „Þetta er í rauninni svona ákveðin svartsýn sýn á framtíðina. Svona getur þetta farið ef við pössum okkur ekki.“

Verkið gerist í framtíðinni og íslenskan sem töluð er hefur breyst í samræmi við það. „Textinn er allur íslenska og enska, danska, og það var mjög flókið að læra hann. Hún er að leika sér með tungumálið,“ segir Ólafur. „Þetta gerist auðvitað í framtíðinni þannig að þá er það orðið meira enskuskotið, heilu setningarnar bara á ensku,“ segir Helga. 

Kosmískt grín

Aðspurð segist Anna María verkið hafa vissulega hafa fengið aðra og aukna merkingu eftir hamfarirnar sem dunið hafa yfir að undanförnu. „Þetta er alveg svona kosmískt grín. Svo kemur bara vírussjúkdómur, heimsfaraldur. Þetta er smá spádómur, þetta er möguleg útkoma af okkar raunveruleika núna dagsins í dag. Ætlum við að bjarga heiminum eða ætlum við að halda áfram?“

Nánari upplýsingar um The Last Kvöldmáltíð má finna hér.