Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Jón Steinar hættur í sakamálaverkefni dómsmálaráðherra

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RUV
Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, segir í samtali við fréttastofu að verkefnið að stytta málsmeðferðartíma sakamála sé þýðingarmeira en svo að hann láti tilefnislausar árásir nokkurra spilla fyrir því. 

Jón Steinar óskaði í morgun eftir því að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra leysti hann frá verkefninu. Þetta kemur fram á Facebook-síðu Áslaugar Örnu og að Hörður Felix Harðarson hæstaréttarlögmaður hafi tekið verkið að sér í stað Jóns.

Hörður Fel­ix hefur verið lögmaður og verjandi Hreiðars Más Sig­urðsson­ar, fyrr­ver­andi for­stjóra Kaupþings, í dómsmálum tengdum efnahagshruninu árið 2008. 

Frá því var greint í byrjun vikunnar að dómsmálaráðherra hefði falið Jóni Steinari þetta verkefni. Í ályktun Kvenréttindafélags Íslands og Stígamóta 9. mars segir að sú ákvörðun hennar sé ekki til þess fallin að auka traust þolenda kynbundins ofbeldis á kerfinu. 

Þar segir einnig að Jón Steinar hafi staðhæft að íslenskir dómstólar hafi í stórum stíl látið undan kröfum um að slakað verði á sönnunarfærslu í kynferðisbrota- og barnaníðsmálum, að saklausir menn hafi verið ranglega dæmdir.

Jafnframt hafi hann sagt málsmeðferð dómstóla gera fólki kleift að „ná sér niðri á öðrum með því að bera fram rangar sakargiftir á hendur þeim“.

Sömuleiðis segir í yfirlýsingu samtakanna tveggja að Jón Steinar hafi fullyrt að þolendum kynferðisbrota „myndi líða miklu betur ef þeim tækist að þróa með sér fyrirgefningu“.

Áslaug Arna andmælti á Facebook-síðu sinni og kvaðst hafa leitað til Jóns til að rannsaka hvort lærdóm megi draga af löngum málsmeðferðartíma í efnahagsbrotum og hvar megi stytta hann til hagsbóta fyrir alla.

„Allt tal um að ég sé með þessu verkefni að senda konum kalda kveðju er því innantómt.“

Áslaug segir í færslu sinni í dag að samtöl hennar við fjölda lögmanna sem sinnt hafi svokölluð hrunmálum sýni að málferðartími efnahagsbrota sé langur.

Sú vinna sem nú verði ráðist í gagnist í fleiri brotaflokkum enda sé allra hagur að rannsókn og meðferð mála fyrir dómstólum taki ekki of langan tíma. 

Áslaug Arna kveðst telja mikilvægt að hlusta á ólík sjónarmið, meðal annars frá þeim sem starfa ekki innan kerfisins. Hörður Felix mun kalla til sérfræðinga, fólk með reynslu og þekkingu eins og segir í færslu ráðherra.

Hún segir afraksturinn verða tekinn til skoðunar og í framhaldinu kallað eftir sjónarmiðum fleiri, þar á meðal réttarfarsnefndar.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV