Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hert á aðgerðum á Ítalíu

12.03.2021 - 10:50
epa09067463 People enter the Italian Red Cross tensile structure set up at Piazza dei Cinquecento to get a coronavirus vaccine against Covid-19 inside, Rome, 11 March 2021.  EPA-EFE/MASSIMO PERCOSSI
 Mynd: EPA-EFE - Ansa
Búist er við að stjórnvöld á Ítalíu tilkynni í dag um hertar aðgerðir þar sem fjölgun COVID-19 sjúklinga að undanförnu er farin að íþyngja sjúkrahúsum verulega. Mario Draghi forsætisráðherra hélt ríkisstjórnarfund í morgun þar sem farið var yfir stöðuna eftir að tilkynnt var í gær um hátt í 26 þúsund ný veirusmit.

Ítalskir fjölmiðlar telja að skólum, veitingahúsum og verslunum verði lokað víðs vegar um landið. Langbarðaland í norðri og Kalabría í suðri verða að líkindum lýst rauð hættusvæði frá mánudegi. Hugsanlegt er að það verði einnig gert í Lazio héraði, þar með talinni Rómarborg.

Dauðsföll af völdum COVID-19 eru komin yfir eitt hundrað þúsund á Ítalíu frá því að farsóttin blossaði upp fyrir ári, þar af 373 síðastliðinn sólarhring. Nýjum afbrigðum kórónuveirunnar er kennt um að ástandið hefur versnað hratt að undanförnu. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV