Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Grímulaus aðför að láglaunakvennastéttum“

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
„Það eru algerlega forkastanleg vinnubrögð hjá Heilbrigðisráðuneytinu að krefjast þess að allt að 150 starfsmönnum verði sagt upp, sem eru að langmestu leyti konur í láglaunastörfum,“ segir í nýrri yfirlýsingu frá Starfsgreinasambandinu vegna yfirfærslu á rekstri hjúkrunarheimila í Fjarðabyggð og Vestmannaeyjabæ og óljósrar réttarstöðu starfsfólksins þar.

Ráðherra segist ekki geta skorist í leikinn

Eftir að Fjarðabyggð og Vestmannaeyjabær sögðu upp samningi við Sjúkratryggingar Íslands ákváðu heilbrigðisyfirvöld að flytja rekstur hjúkrunarheimilanna Hulduhlíðar, Uppsala og Hraunbúða til heilbrigðisstofnana Suðurlands og Austurlands. Sveitarfélögin hafa mótmælt tómlæti og seinagangi heilbrigðisyfirvalda við yfirfærsluna og segjast standa frammi fyrir að segja upp 140 manns.

Heilbrigðisráðherra segist lögum samkvæmt ekki hafa heimild til að skerast í leikinn og segir að hvergi í lögunum sé að finna heimild ráðherra til að ákveða að þau skuli gilda í tilvikum sem þessum. Sú staðreynd hljóti að hafa verið bæjarstjórunum ljós þegar þeir ákváðu að segja upp samningum við Sjúkratryggingar Íslands. Forstjórum heilbrigðisstofnananna sem taka muni við rekstri hjúkrunarheimilanna beri samkvæmt lögum að ráða starfsfólk á grundvelli auglýsingar líkt og hjá öðrum stofnunum ríkisins. 

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, sagði í fréttum í gær að bæði sveitarfélögin hefðu lagt áherslu á að starfsfólk stofnananna færðist hnökralaust yfir til nýs rekstraraðila og að réttarstaða þeirra yrði tryggð. Sveitarfélögin hefðu óskað eftir því við Sjúkratryggingar Íslands að fresta uppsögn á samningi um rekstur hjúkrunarheimilanna um einn mánuð.

Saka ríkið um ruddalega framkomu

„Starfsgreinasamband Íslands mótmælir harðlega boðuðum uppsögnum á hjúkrunarheimilum í Fjarðabyggð og Vestmannaeyjabæ. Það er aumur fyrirsláttur hjá ríkinu að það sé nauðsynlegt vegna yfirfærslu rekstrarins frá sveitarfélögum til ríkisins og hrein svik á því sem stéttarfélögum starfsmanna hefur verið gefið til kynna,“ segir í yfirlýsingu sambandsins, og að svo virðist sem starfsfólkið verði ráðið aftur til starfa undir öðrum kjarasamningi á verri kjörum. 

„Á landinu er atvinnuleysi í sögulegu hámarki og koma þessar fyrirhuguðu uppsagnir í framhaldi af öðrum uppsögnum á Heilbrigðisstofnunum á svæðinu sem er grímulaus aðför að láglauna kvennastéttum. Þessi ruddalega framkoma eru ótrúlegar kveðjur til þessa fólksins sem hefur unnið sín mikilvægu störf undir miklu álagi undanfarin misseri. SGS krefst þess að hætt verði uppsagnirnar og málið leyst þannig starfsfólkið haldi vinnu sinni og kjörum,“ segir jafnframt í yfirlýsingunni.