Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Framsókn eini stjórnarflokkurinn sem bætir við sig

12.03.2021 - 16:07
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fylgi Framsóknarflokkins jókst um rúmt prósentustig milli mánaða samkvæmt nýrri skoðanakönnun MMR á fylgi stjórnmálaflokkanna. Vinstri græn missa tæp tvö prósentustig og Sjálfstæðisflokkurinn rúmlega eitt. Samfylking, Miðflokkur og Flokkur fólksins bæta við sig.

VG með tæp 12 prósent

Fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist nú 21,0%, rúmlega prósentustigi lægra en við síðustu könnun MMR sem framkvæmd var í febrúar 2021. Fylgi Samfylkingarinnar jókst um tæpt prósentustig og mældist 13,8% og fylgi Framsóknarflokksins jókst um rúmt prósentustig og mældist nú 12,7%. Þá lækkaði fylgi Vinstri-grænna um tæplega tvö prósentustig og mældist nú 11,7%, fylgi Miðflokksins jókst um rúmt prósentustig og mældist nú 9,3% og fylgi Flokks Fólksins jókst um eitt og hálft prósentustig og mældist nú 5,1%. Fylgi annarra flokka mælist svipað milli mánaða. Könnunin var gerð dagana 5. til 10. mars 2021. 

Stuðningur við ríkisstjórnina mældist nú 53,7% og minnkaði um tæpt prósentustig frá síðustu könnun, þar sem stuðningur mældist 54,5%.

 
sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV