Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Fimm frekar framandi fyrir helgina

Mynd með færslu
 Mynd: Nedda Afsari - Masseducation

Fimm frekar framandi fyrir helgina

12.03.2021 - 12:35

Höfundar

Ferskleikinn er í fyrirrúmi í Fimmunni að þessu sinni og boðið upp á nýtt frá besta bandi Bretlands um þessar mundir, að sögn NME, Wolf Alice; Prince-legan slagara frá St. Vincent; hressandi hjónabandsrifrildi frá rugludöllunum í Ohtis; raftónlistarbræðing frá For those I Love; og heimspekilega spurningu úr Future Utopia-verkefninu.

Wolf Alice – The Last Man On Earth

Það er von á nýrri plötu frá Wolf Alice í júní og það er þeirra þriðja. Sú hefur fengið nafnið Blue Weekend og Bretinn er að springa úr spenningi. NME er til dæmis búið að pensla þau besta band Bretlands enda fékk síðasta plata Mercury-verðlaun fyrir fjórum árum. Nýja lagið, The Last Man On Earth, er að einhverju leyti ástæðan fyrir þessu hæpi sem við verðum að vona að bandið standi undir.


St. Vincent – Pay Your Way In Pain

Annie Clark hefur svo sem aldrei verið að fela hrifningu sína á Prince, sem er mjög gott af því Prince er frábær og á aðdáun hennar fyllilega skilið. Lagið hennar, Pay Your Way In the Rain, er sem sagt undir miklum áhrifum frá honum og það fyrsta af væntanlegri sjöttu plötu hennar. Um plötuna Daddy’s Home, sem kemur út í maí, hefur hefur St. Vincent síðan sagt að hún sé blúsplata ársins.


Ohtis með Stef Chura – Schatze

Bandið Ohtis hefur víst verið starfandi lengi en lítið gengið vegna eiturlyfjaneyslu og ólifnaðar. Þau gáfu, eftir mikinn barning, út sína fyrstu plötu í fyrra sem heitir Curve Of Earth. Nýja lagið þeirra, Schatze, er virkilega hressandi og fjallar um sjálfselskan og andfélagslegan mann sem fær það óþvegið frá frekar pirraðri kærustu.


For those I Love – Birthday, the Pain

David Balfe frá Dublin er með svo breiða kjálka að hann er mögulega búinn að vera bryðja tennur frá fæðingu eins og sannur teknótarfur. Burtséð frá útliti Davids er breska músíkpressan að dýrka nýjasta lag hans, Birthday, the Pain, sem er skiljanlegt, lagið er alveg yfir meðallagi ferskt.


Future Utopia með Kojey Radical & Easy Life – Million$Bill

Úr undirheimum breska rappsins, eða grindcore-sins, kemur samstarfsverkefni Fraser T. Smith við fjölda listafólks í greininni sem hann kallar Future Utopia og platan 12 Questions. Á plötunni koma til dæmis við sögu Arlo Parks, Dave, Stormzy og fleiri en í laginu Million$Bill er spurt hvað myndirðu gera við milljón dollara og Kojey Radical og Easy Life reyna að svara.


Fimman á Spottanum