Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Búið að koma taug milli Þórs og Baldurs

Mynd tekin úr Breiðafjarðarferjunni Baldri meðan hún var aflvana og unnið við að koma henni til hafnar.
 Mynd: Einar Sveinn Ólafsson
Varðskipið Þór er komið með Breiðafjarðarferjuna Baldur í tog og siglir með hana að Stykkishólmi. Nú er gert ráð fyrir að skipin komi að Stykkishólmi um klukkan eitt. Vegna aðstæðna þar getur Þór ekki dregið skipið inn í höfnina heldur tekur hafnsögubáturinn Fönix þá við drættinum síðasta spölinn. Það verður gert þegar aðstæður leyfa.

Árni Friðriksson, rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar, tók Baldur í tog í gær eftir að vél ferjunnar bilaði. Skipin voru tengd saman þar til tókst að koma taug á milli Baldurs og Þórs. núna fyrir hádegi. 

Þyrla Landhelgisgæslunnar er í Stykkishólmi og verður til taks ef á þarf að halda.

Baldur var í aukaferð yfir Breiðafjörð í gær þegar vél skipsins bilaði. Það er aðeins með eina aðalvél og ekki tókst að koma henni í gang. Vegna veðurs og sjógangs þarf að sæta lagi við aðgerðir til að koma skipinu til hafnar. 28 eru um borð, átta manna áhöfn og 20 farþegar. Ferðin sem átti að taka tæpar þrjár klukkustundir hefur nú staðið yfir í tæpan sólarhring.

Stjórnmálamenn krefjast úrbóta

Þingmenn Norðvesturkjördæmis gagnrýndu stöðuna harðlega í umræðum við upphaf þingfundar í dag. Bæjarstjórn Vesturbyggðar sendi frá sér ályktun í gær þar sem hún krafðist tafarlausra úrbóta, meðal annars þess að ferja sem sinni siglingum yfir Breiðafjörð sé búin tveimur vélum. „Vesturbyggð krefst þess að í eitt skipti fyrir öll að nú verði ferjan endurnýjuð og öryggi íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum tryggt með eðlilegum samgöngum,“ segir í yfirlýsingu bæjarstjórnar.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV