Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bilun Baldurs hafði strax áhrif á atvinnulíf

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð, segir að óhug hafi sett að fólki þegar vélin í Baldri bilaði í gær. Þetta sé það sem heimamenn hafi haft áhyggjur af að gæti gerst og jafnvel á versta tíma. Hún segir að tryggja verði samgöngur milli sunnanverðra Vestfjarða og annarra landshluta. Undir því eigi samfélagið og atvinnulífið allt sitt. Hætta þurfti slátrun í fiskeldi þar sem ekki var hægt að flytja afurðir burt.

„Þetta hefur strax gríðarleg áhrif,“ segir Rebekka um bilunina í Baldri. „Til dæmis liggur niðri núna vinnsla hjá Arnarlaxi í dag. Fyrirtækið er með töluvert magn í bænum núna sem er á Breiðafirðinum, þannig að þetta hefur strax áhrif og mjög mikilvægt að það verði tryggðar samgönguleiðir til og frá svæðinu í næstu viku. Við eigum allt okkar undir í því.“

Eins og eyja þegar Klettsháls lokast

Rebekka segir mikilvægt að tryggja góðar samgöngur á sunnanverðum Vestfjörðum. „Við höfum náttúrulega verið að fást við veturinn líka, þó hann hafi verið nokkuð góður við okkur þá hefur Klettsháls verið að lokast og þá erum við bara eins og eyja. Þá erum við upp á náð og miskunn Baldurs komin, bæði með það að koma fólki frá og til okkar og eins afurðum, sem hefur stórkostlega aukist síðustu misseri.“

Núverandi ferja er of lítil þar sem hún dugar ekki undir allan þann farm sem þarf að flytja, segir Rebekka. Því hafa framleiðendur á sunnanverðum Vestfjörðum líka sent framleiðslu sína landleiðina, þegar það hefur verið hægt. Hún leggur áherslu á að ný ferja með tveimur aðalvélum taki við siglingunum. „Það er mjög sérstakt út frá öryggi okkar íbúa, að ég tali nú ekki um út frá þessu viðkvæma svæði sem ferjan er að sigla um, að það skuli ekki vera tvær vélar í þessum bát til að geta brugðist við aðstæðum eins og sköpuðust síðasta sumar og aftur í gær.“

Ferjusiglingar mikilvægar áfram

Ferjusiglingar verða áfram mikilvægur þáttur í samgöngum, sérstaklega yfir vetrarmánuðina, þótt vegaframkvæmdir um Gufudalssveit klárist, segir Rebekka. Öflugt og umsvifamikið atvinnulíf kalli á tryggar samgöngur. Hún bendir á að þótt svo samgöngur um Gufudalssveit batni þá sé Klettshálsinn enn eftir. Hann hafi verið lokaður 40 daga síðasta vetur.