Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

„Bara ömurlegt fyrir okkar samfélag þarna fyrir vestan“

Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Breiðafjarðarferjan Baldur kom loks til hafnar í Stykkishólmi í dag. Einn farþeganna segir óboðlegt að hafa ferju í Breiðafirði með einungis einni vél.

Fjölmenni var á höfninni í Stykkishólmi í dag þegar dráttarbáturinn Fönix dró Baldur loks að landi. Þá voru áhöfn og farþegar búin að vera á sjó í 27 tíma eftir að ferjan varð vélarvana á leið sinni frá Brjánslæk í gær.

„Mér fannst nú liggja nokkuð vel á fólki og einstaklingar sem höfðu aldrei verið á sjó voru þarna, en menn báru sig nokkuð vel,“ segir Leiknir Fannar Thoroddsen, einn farþeganna um hvernig lá á mannskapnum um borð.

Hræðilegt að hafa skip sem ekki sé hægt að treysta á

Leiknir býr á Patreksfirði og þegar færð er með versta móti eins og nú í vikunni er Baldur eina leiðin frá Suðurfjörðunum til annarra landshluta. Í Baldri er einungis ein vél og því er ekkert upp á að hlaupa ef eitthvað kemur fyrir. Leiknir segist þakka fyrir að ekki fór verr.

„Að hafa ekki skip sem er hægt að treysta á ef eitthvað bilar og getur ekki einu sinni bjargað sér fram hjá einu skeri. Hvað á ég að segja? Þetta er bara hræðilegt, þetta er bara ömurlegt fyrir okkar samfélag þarna fyrir vestan.“

Finnst þér þú geta treyst ferjunni? 

„Nei, ekki eftir þessa ferð. Þarna er bátur með eina aðalvél, og að hann bara stoppi í Breiðafirðinum. Ég veit ekki hvað eru margar eyjar og sker það er þarna út um allt. En þetta er ekki nokkrum manni bjóðandi. Ég mun örugglega enda í þessari ferju einn daginn, því allt annað er lokað, en ég er að vonast til að lenda ekki í 27 tíma reki.“

Stjórnvalda að tryggja ferju með tveimur vélum

Háværar kröfur eru um að fá nýja ferju með tveimur vélum og hafa þær heyrst í þónokkurn tíma. Fyrirtækið Sæferðir gerir Baldur út, en framkvæmdastjóri þess segir þörf á að stjórnvöld spýti í ef úr á að bæta.

„Þetta snýst auðvitað allt um fjármagn. það er bara þannig og hvað er sett í þessar samgöngur. Hvað er sett í samgöngur hvort sem það er hérna eða við önnur eyjasamfélög eða hvað sem er annað við strendur landsins. Svo eru verkin boðin út og þá gera menn bara það sem þeir geta í því.“

Hægt er að horfa fréttina hér