Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Bandaríkin og ESB fordæma ný lög um Hong Kong

12.03.2021 - 05:15
epaselect epa09067139 Hostesses wearing protective face masks hold drinks prior to the closing session of the National People’s Congress (NPC), at the Great Hall of the People, in Beijing, China, 11 March 2021. China held two major annual political meetings, The National People’s Congress (NPC) and the Chinese People's Political Consultative Conference (CPPCC) which run alongside and together known as 'Lianghui' or 'Two Sessions'.  EPA-EFE/ROMAN PILIPEY / POOL
 Mynd: EPA-EFE - EPA POOL
Bandaríkin og Evrópusambandið fordæma samþykkt kínverska þingsins um breytingar á kosningalögum í Hong Kong. AFP fréttastofan greinir frá þessu. Bandaríkjastjórn segir lögin kæfa lýðræðið í héraðinu og þau séu bein árás á efnahag Hong Kong, frelsi þess og lýðræðislegar stofnanir.

Í yfirlýsingu Evrópusambandsins segir að kínverska þingið hafi tekið ákvörðun sem hafi alvarleg áhrif á lýðræðislega ábyrgð og pólitískan fjölbreytileika í Hong Kong. Josep Borrell, yfirmaður utanríkismála hjá ESB, segir að í ljósi þessa verði Evrópusambandið að íhuga næstu skref og beina athygli sinni enn frekar að ástandinu í Hong Kong.

Kínverska þingið samþykkti breytingar á kosningalögum í Hong Kong nær einróma. Þær fela meðal annars í sér að stjórnvöld í Peking geta meinað einstaklingum sem þeim er ekki að skapi að vera í framboði. Með þessu herða stjórnvöld í Peking enn frekar tökin á Hong Kong. Íbúar héraðsins hafa hingað til notið meira frelsis en aðrir íbúar Kína, og lotið meiri sjálfstjórn en önnur héruð Kína. Í fyrra samþykkti kínverska þingið ný öryggislög fyrir Hong Kong. Margir úr forystu lýðræðissinna hafa verið handteknir vegna þeirra og dæmdir fyrir brot á lögunum.