Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Tíu með virkt smit þrátt fyrir neikvætt PCR-vottorð

11.03.2021 - 11:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Sautján virk smit hafa greinst á landamærunum frá 19. febrúar, þegar byrjað var að krefja komufarþega um neikvæð PCR-vottorð. Af þessum sautján sem greindust höfðu tíu framvísað neikvæðu vottorði. „Þetta sýnir að PCR-vottorð eru ekki gulltrygging fyrir því að fólk sé ekki smitað,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi Almannavarna í dag.

Fjórir þessara tíu greindust með COVID-19 við komuna hingað til lands og sex við síðari skimun. 

Þórólfur segir ekkert benda til þess að fólk framvísi vafasömum vottorðum, en að þó sé fylgst vel með því hvort vottorð kunni að vera fölsuð. 

Ekki tilefni til hertra aðgerða á landamærunum

Enginn greindist á landamærunum í gær og Þórólfur sér ekki tilefni til að herða sóttvarnaaðgerðir á landamærunum. Hann segist telja að allt sem hægt er að gera til að lágmarka líkurnar á að smit berist í gegnum landamærin sé nú þegar gert.

Hann segist heldur ekki telja rétt að banna sóttkví í stigagöngum, þrátt fyrir að þau sem greindust með breska afbrigði veirunnar um helgina hafi smitast af einstaklingi sem var í sóttkví í stigaganginum þar sem þau búa, eftir komuna til landsins. „Það eru sennilega engin rök fyrir því að banna fólki að vera í sóttkví í fjölbýlishúsum“, sagði Þórólfur.