Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Sjötta ásökunin gegn Cuomo birtist í gær

11.03.2021 - 06:45
epa09062642 New York Gov. Andrew Cuomo speaks at press conference during a visit to a vaccination site in the Jacob K. Javits Convention Center in New York, New York, USA, on 08 March 2021.  EPA-EFE/SETH WENIG / POOL POOL PHOTO
 Mynd: EPA-EFE - AP POOL
Alvarlegasta ásökunin til þessa í garð Andrew Cuomo, ríkisstjóra New York í Bandaríkjunum, birtist í blaðinu The Times Union of Albany í gær. Haft er eftir konu, sem vill ekki láta nafns síns getið, að Cuomo hafi lokað að þeim, fært hendur sínar inn undir bolinn hennar og byrjað að fitla við hana. Þetta er sjötta konan sem ásakar Cuomo um kynferðislega áreitni.

Grein dagblaðsins er byggð á frásögn heimildamanns sem heyrði þetta frá ónefndu konunni sjálfur. Þar segir að Cuomo hafi fengið konuna inn á skrifstofu til sín, á þeim forsendum að hann þyrfti aðstoð með símann sinn.

Samkvæmt grein The Times Union of Albany var hún aðstoðarkona hans, líkt og fleiri sem hafa komið fram með sögur sínar. Þeirra á meðal er hin 25 ára gamla Charlotte Bennett. Lögmaður hennar, Debra Katz, sagði í yfirlýsingu í gær að sagan sem birtist í gær væri óþægilega lík sögu Bennett. Hún sagði jafnframt að þegar Bennett tilkynnti áreitni Cuomos til starfsliðs hans, var málið þaggað niður og látið vera að rannsaka það.

Neitar öllu

Fimm þeirra sem saka Cuomo um að hafa brotið gegn sér unnu sem aðstoðarmenn hans í ríkisstjóratíð hans, eða þegar hann var ráðherra í ríkisstjórn Bill Clinton. Ein kvennanna segir hann hafa sýnt óviðeigandi hegðun í brúðkaupi. Þar til í gær voru ásakanirnar allt frá óviðeigandi daðri til koss án samþykkis. Cuomo neitar ásökununum staðfastlega. Ríkissaksóknari New York er með málið á sínu borði, og sagði talsmaður Cuomo í yfirlýsingu í gær að hann ætli ekki að tjá sig frekar um málið á meðan rannsókn stendur.

Þrýst á afsögn

Þrýst hefur verið á Cuomo að láta af embætti vegna málanna. Meðal þeirra sem það hafa gert eru þingmenn á ríkisþingi New York, þeirra á meðal flokkssystkin Cuomos í Demókrataflokknum. Hann nýtur þó enn stuðnings meirihluta þingmanna á ríkisþinginu, sem segjast vilja bíða niðurstöðu rannsóknar ríkissaksóknara á málinu.