„Það sem gerðist var það að við skiluðum laginu á þriðjudaginn, þegar okkur var gert að skila því inn til Eurovision-keppninnar. Og innan við sólarhring síðar, þá er búið að leka því, eða hefur það lekið á netið,“ segir Skarphéðinn.
„Þetta er klár þjófnaður, þetta er í sjálfu sér ekki leki. Þetta hefur gerst áður, oftar en einu sinni. Þetta segir til um hversu mikil eftirvæntingin er, þegar kemur að því að fólk vilji heyra þessi lög. Það er eitthvað sem við getum litið jákvæðum augum, það er mikil eftirvænting eftir því að heyra framlag Daða og Gagnamagnsins í ár.“
Veðbankar gætu haft áhrif
Er vitað hvernig þetta gerðist eða hver gerði þetta?
„Það er ómögulegt að segja til um það. Eins og ég segi, þetta eru einhverjir óprúttnir aðilar sem stunda þetta. Það eru veðbankar í kringum þetta og þetta hefur örugglega eitthvað með það að gera líka. En eins og ég segi, þá er ómögulegt að rekja það og það eina sem við getum gert er að halda okkar striki og við berum okkur vel og Daði og er rólegur, við erum róleg og höldum okkar striki.“
En er ekki ljóst að einhver starfsmaður sem meðhöndlar lagið á einhverjum tímapunkti hefur lekið því?
„Eins og ég segi, þá lítum við þetta alvarlegum augum. Við erum í sambandi við forsvarsmenn keppninnar og höfum gert þeim grein fyrir því að þetta hefur lekið og að við lítum það alvarlegum augum. En það er voðalega lítið annað við því að gera annað en að einhverju leyti reyna að rekja það og sjá til þess að virðulegir erlendir netmiðlar séu ekki að taka þátt í svona þjófnaði.“
Þannig að það stendur til að rekja þetta?
„Við rekjum þetta að einhverju leyti en það er í sjálfu sér ekki mikið hægt að gera í því. Við erum fyrst og fremst að einblína á að bjóða upp á þátt á laugardaginn þar sem lagið og atriðið verður opinberað í allri sinni dýrð og erum gríðarlega spennt að geta gert það í þessum nýja sjónvarpsþætti, Straumum.“
Ekki gerst áður með þessum hætti
Hefur þetta einhverjar afleiðingar varðandi þátttöku okkar í Eurovision?
„Það á ekki að hafa neinar afleiðingar, aðrar en þær að við munum náttúrulega krefja forsvarsmenn keppninnar svara um hvernig svona lagað getur átt sér stað og hvort það sé ekki þörf á því að herða allar slíkar varúðarráðstafanir sem snúa að mögulegum þjófnaði.“
Hefur þetta gerst áður varðandi íslensk Eurovision-lög?
„Þetta hefur gerst áður með íslensk Eurovision-lög sem hafa verið í Söngvakeppninni, þegar þau hafa ekki verið opinberuð hér heima, eru enn þá í vinnslu og þættirnir í framleiðslu, þá hefur það komið fyrir að einhver leki hefur átt sér stað. En þetta hefur ekki gerst áður með þessum hætti,“ segir Skraphéðinn.