Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Mótmæla töfum á yfirfærslu á rekstri hjúkrunarheimila

11.03.2021 - 19:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjarðabyggð og Vestmannaeyjabær mótmæla harðlega tómlæti og seinagangi heilbrigðisyfirvalda við yfirfærslu á rekstri hjúkrunarheimila. Vegna óvissu um réttarstöðu starfsfólks standi þau frammi fyrir að segja upp 140 manns. Heilbrigðisráðherra segist lögum samkvæmt ekki hafa heimild til að skerast í leikinn.

Alvarleg rekstrarstaða hjúkrunarheimila hefur blasað við um tíma. Bæjarráð Vestmannaeyja og sveitarfélagið Fjarðabyggð hafa staðið frammi fyrir þeirri ákvörðun heilbrigðisyfirvalda að flytja rekstur hjúkrunarheimila þeirra til heilbrigðisstofnana Suðurlands og Austurlands. Um er að ræða rekstur hjúkrunarheimilanna Hulduhlíðar, Uppsala og Hraunbúða. Sú ákvörðun var tekin eftir að sveitarfélögin sögðu upp samningi við Sjúkratryggingar Íslands.

„Bæði sveitarfélög hafa lagt áherslu á að starfsfólk stofnananna færist hnökralaust yfir til nýs rekstraraðila og tryggja þurfi réttarstöðu þess. Nú sé ljóst, segir í fundargerð, að heilbrigðisráðuneytið muni ekki leggja sitt af mörkum til að svo geti orðið og því standi þau frammi fyrir hópuppsögnum. Hefur verið óskað eftir því við Sjúkratryggingar Íslands að fresta uppsögn á samningi um rekstur hjúkrunarheimilanna um einn mánuð með hagsmuni starfsfólks að leiðarljósi,“ segir Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.

Sveitarfélögin fara fram á að velferðarnefnd Alþingis hlutist til um málið og tryggi án frekari tafa að lög um réttarstöðu starfsmanna gildi þegar yfirfærslan tekur við.  Ljóst sé að heilbrigðisráðherra ætli sér ekki að vinna að farsælli lausn málsins. 

Rætt á Alþingi í dag

Mikið uppnám varð við upphaf fundar á Alþingi í dag um trúnað þingnefnda og meint trúnaðarbrot formanns velferðarnefndar þegar verið væri að ræða jafn alvarleg mál eins og rekstur hjúkrunarheimila.

„Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hæstvirtur veit af þessu hún var vöruð við og það var núna að koma í ljós að ríkisstjórnin ætlar ekki að hlífa þessum konum og fólki af erlendum uppruna heldur gera sveitarfélögunum að segja upp 140 manns núna á þessum tímum,“ sagði Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis.

Í yfirlýsingu sem barst frá heilbrigðisráðherra síðdegis í dag vegna þessa máls segir að hvergi í lögunum sé að finna heimild ráðherra til að ákveða að þau skuli gilda í tilvikum sem þessum. Sú staðreynd hljóti að hafa verið bæjarstjórunum ljós þegar þeir ákváðu að segja upp samningum við Sjúkratryggingar Íslands. Forstjórum heilbrigðisstofnananna sem taka muni við rekstri hjúkrunarheimilanna beri samkvæmt lögum að ráða starfsfólk á grundvelli auglýsingar líkt og hjá öðrum stofnunum ríkisins.