Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Kvikugangurinn virðist færast um 500 metra á sólarhring

Mynd: Skjáskot / RÚV
„Það eru vísbendingar um að gangurinn sé kominn í Nátthaga, sem er dalur aðeins austan við Borgarfjallið, aðeins austan við Nátthagakrika,“ sagði Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, í hádegisfréttum. „Þetta eru ekki miklar breytingar, og breyta ekki okkar sviðsmyndum, en þetta eru kannski 500 metrar sem gangurinn virðist færast á sólarhring.“

Skjálftavirkni á Reykjaneshryggnum hefur haldið áfram. „Þessir skjálftar sem urðu í morgun eru ansi kröftugir, þetta eru gikkskjálftar sem verða í mikilli fjarlægð frá kvikuganginum og eru til marks um að þrýstingur er að byggjast upp í tengslum við þessi umbrot syðst í Fagradalsfjalli,“ sagði Kristín.

Ef af eldgosi verður líða væntanlega nokkrar klukkustundir áður en hraunið væri komið í sjó fram. „Allra helstu tölur um framgang hrauns eru um 400 metrar á klukkustund, þannig að ef það yrði eldgos núna í Nátthaga væru svona sex klukkustundir þangað til það væri komið niður á Suðurstrandarveg en líklega tæki það lengri tíma,“ sagði Kristín í hádegisfréttum.