Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Heimsglugginn: COVID-19 bjargráð samþykkt vestan hafs

Mynd: EPA-EFE / EPA
Bandaríkjaþing samþykkti í gærkvöld bjargráðapakka til að takast á við efnahagskreppuna sem fylgt hefur COVID-19 heimsfaraldrinum. Útgjöld vegna aðgerðanna eru áætluð upp á 1,9 billjónir dollara og er þeim einkum ætlað að koma fólki með meðal- og lágar tekjur til góða. Hver Bandaríkjamaður á að fá 1400 dollara ávísun. Þetta ræddu Þórunn Elísabet Bogadóttir og Björn Þór Sigbjörnsson við Boga Ágústsson í Heimsglugga vikunnar.

Hagvexti spáð í ár

Spáð er hagvexti í flestum vestrænum ríkjum á þessu ári eftir mikinn samdrátt vegna COVID-19 í fyrra. Þrátt fyrir það segir Kenneth Rogoff, hagfræðiprófessor við Harvard og einn virtasti hagfræðingur veralda, að kreppunni sé ekki lokið. Við heyrum í Rogoff, sem skrifaði ásamt Carmen Reinhart bók um efnahagskreppur í 800 ár sem ber heitið ,,Núna er þetta öðruvísi," (This time it's different), sem Rogoff segir vera kaldhæðni.

Köld sambúð Breta og ESB

Þá var rætt um kalda sambúð Breta og ríkja Evrópusambandsins. Írar saka Breta um að hafa í tvígang brotið útgöngusaminginn úr ESB um stöðu Norður-Írlands. Í Bandaríkjunum er ráðamönnum umhugað um að Brexit stefni ekki friði á Norður-Írlandi í hættu. Írar hafa veruleg ítök vestan hafs, þar sem tugmilljónir rekja ættir sínar til eyjunnar grænu, þar á meðal Joe Biden forseti.