Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fólk eyðir meiru í faraldrinum en spáð var

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Jónsson - RÚV
Einkaneysla á fjórða ársfjórðungi síðasta árs dróst mun minna saman en á fyrsta ársfjórðungi þegar fyrsta bylgja COVID-faraldursins reið yfir. Hún dróst saman um rúm 3 prósent á síðasta ársfjórðungi en um 8,7 prósent á þeim fyrsta.

Fjallað er um þróunina í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans. Þar segir að þróunin hafi verð á þennan veg vegna breyttra neysluvenja þar sem fólk hafi í auknum mæli verslað á netinu. Þá hafi minna farið í utanlandsferðir og meira í ferðalög innanlands. Margir hafi einnig fjárfest í einhverju til heimilisins, kortavelta einstaklinga í raf- og heimilistækjaverslunum hafi aukist um þriðjung í byggingavöruverslunum um 22 prósent á milli 2019 og 2020. 

Alls dróst einkaneysla saman um 3,3 prósent í fyrra og hafði hagfræðideild Landbankans spáð því að samdrátturinn yrði meiri, því að tölur í byrjun árs bentu til þess, stuttu eftir að faraldurinn hófst. 

Sé miðað við tímabilið frá aldamótum þá náði neysla einstaklinga hámarki árið 2007. Neyslan árið 2018 komst næst þeirri árið 2007 en var tæplega tveimur prósentum minni, en árið fyrir hrun. 

Vísbendingar eru um að heimilin haldi að sér höndum og eyði ekki um efni fram, að því er segir í Hagsjánni. Yfirdráttarlán hafa dregist saman um allt að 18 prósent milli ára og innlán hafa aukist um allt að 17 prósent. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir