Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Engin bílaferja tiltæk meðan Baldur er bilaður

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson er komið með Breiðafjarðarferjuna Baldur í tog. Baldur vélarvana úti á Breiðafirði. Tekið úr þyrlu Landhelgisgæslunnar
 Mynd: Landhelgisgæslan - Aðsent
Breiðafjarðarferjan Baldur er enn vélarvana á Breiðafirði og bíður eftir dráttarbátnum Fönix sem er á leið frá Reykjavík. Á meðan gert verður við Baldur er ekkert skip sem getur leyst Baldur af hólmi sem getur flutt bíla, aðeins farþega.

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson hefur ferjuna í togi og varðskipið Þór er komið á vettvang. Bæði skipin eru hins vegar of stór til þess að koma ferjunni til hafnar í Stykkishólmi. Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug þar yfir í dag. Bæði farþegar og áhöfn eru enn um borð og munu halda sig þar uns ferjan er komin í land. Baldur verður dreginn til hafnar um leið og öruggt er, en það er mögulega ekki fyrr en á morgun þar sem veður lægir ekki fyrr en um hádegisbil.

„Núna er bara að koma fólki í land, heilu og höldnu auðvitað og svo áhöfninni og því sem er um borð. Þar er verðmætur farmur, fyrst og fremst farþegarnir auðvitað og áhöfnin og svo það sem er í flutningabílum og slíku,“ segir Gunnlaugur Grettisson, framkvæmdastjóri Sæferða.

 En hann er að bila í annað skiptið á svo stuttum tíma, hvernig kemur það við ykkur?
„Þetta er mjög erfitt, þetta er mjög erfitt fyrir okkar litla félag, Sæferðir að standa í þessu. En við munum auðvitað bara taka á því. Við munum girða okkur í brók og fá aðstoð og koma okkur aftur af stað. Það er bara þannig, það er ekkert annað í boði,“ segir Gunnlaugur.

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps sendi í kvöld frá sér yfirlýsingu þar sem hún harmar það ástand sem upp er komið varðandi bilun í ferjunni Baldri.

„Nú eru allar leiðir til og frá sunnanverðum Vestfjörðum lokaðar þar sem Klettsháls er ófær og ekki hefur verið flogið á Bíldudal í tvo daga. Þetta óöryggi í samgöngum er algjörlega óásættanlegt. Aðeins er ein aðalvél í ferjunni Baldri og eftir bilun ferjunnar síðastliðið sumar hefur ítrekað verið bent á þennan öryggisbrest í siglingum yfir Breiðafjörð á fundum með Vegagerðinni. Að auki hefur ítrekað verið bent á nauðsyn þess að efla vetrarþjónustu á Vestfjarðavegi 60. Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps krefst þess að Vegagerðin og samgönguyfirvöld bregðist við þessari stöðu nú þegar og útvegi aðra ferju sem hentar til siglinga á Breiðafirði án þess að öryggi farþega sé stefnt í hættu á meðan ástand vega er jafn slæmt og raun ber vitni. Jafnframt krefst sveitarstjórnin þess að Vegagerðin auki þjónustu sína í vetrarmokstri á Klettshálsi og öðrum fjallvegum nú þegar, þannig að hægt verði að tryggja öruggar samgöngur við svæðið,“ segir í yfirlýsingunni.

Fram kom í máli Gunnlaugs í viðtali við Elsu Maríu Guðlaugs Drífudóttur fréttamann í kvöld að Herjólfur geti ekki leyst Baldur af hólmi, eins og margir hafa kallað eftir þar sem að hann sé of breiður til að leggjast að bryggju í Stykkishólmi. Því þurfi að notast við Særúnu, en hún getur aðeins flutt farþega, en ekki bíla. Því er ekki búið að leysa þann vanda sem steðjar að atvinnurekendum á sunnanverðum Vestfjörðum hvað varðar að koma afurðum, eins og laxi, sjávarfangi, mjólk og öðrum aðföngum til og frá svæðinu.