Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Einn í sóttkví greindist með COVID-19 í gær

11.03.2021 - 10:48
Mynd með færslu
 Mynd: Landspítalinn
Einn greindist með COVID-19 innanlands í gær og sá var í sóttkví. 1.308 sýni voru tekin innanlands í gær og 193 á landamærunum þar sem enginn greindist smitaður.

Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri Almannavarna, segir í samtali við fréttastofu að enn sé þó of snemmt að fagna enda séu enn séu margir í sóttkví sem á eftir að skima. Allir sem voru á tónleikum í Eldborg í Hörpu á föstudagskvöld verða skimaðir í annað sinn í dag. 

Upplýsingafundur almannavarna hefst kl. 11:03 en þar fara Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn yfir stöðu faraldursins. 

33 þúsund bólusettir

Rúmlega 33 þúsund Íslendingar hafa fengið að minnsta kosti fyrri bólusetningu við COVID-19 og hátt í þrettán þúsund eru fullbólusettir. Alls voru 3.254 manns fæddir 1943 og fyrr bólusettir með bóluefni bandaríska lyfjafyrirtækisins Pfizers í gær og í fyrradag og um 738 heilbrigðisstarfsmenn með bóluefni AstraZeneca.