Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Baldur vélarvana úti á miðjum Breiðafirði

11.03.2021 - 15:00
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Breiðafjarðarferjan Baldur er vélarvana á Breiðafirði. Að sögn Gunnlaugs Grettissonar, framkvæmdastjóra Sæferða, virðist hafa komið upp bilun í túrbínu ferjunnar. Það er sama bilun og kom upp í Baldri síðasta sumar. Um borð í ferjunni eru tíu farþegar, sex fólksbílar og nokkrir flutningabílar. Að sögn Gunnlaugs er verið að meta stöðuna með öryggi þeirra sem eru um borð í huga. Þar á meðal er verið að skoða hvort þurfi að toga Baldur í land.

Samkvæmt upplýsingum frá farþega um borð eru fjórir flutningabílar með lax um borð. Samtals 80 tonn. Verið var að varpa akkerum til þess að hindra rek.

Uppfært 16:28:

Varðskipið Þór er á leiðinni vestur og einnig Þyrla Landhelgisgæslunnar til að vera til taks. fólk er ekki talið vera í hættu. Baldur liggur nú fyrir akkerum á milli Stykkishólms og Flateyjar. 

Árni Friðriksson og Þórsnes eru á leið á vettvang. Ekki liggur fyrir hvort að þau geta tekið Baldur í tog, en þau eiga að vera til taks til að tryggja öryggi farþeganna. 

Rætt var við Einar Svein Sveinn Ólafsson verksmiðjustjóri Kalkþörungafélagsins á Bíldudal, en hann er einn þeirra sem eru um borð. Hann segir að það fari vel um farþega og að allir séu öruggir. Veðrið sé ekki neitt sérstakt, um 10-12 metrar á sekúndu og nokkur alda.  Hann tók meðfylgjandi mynd. 

Uppfært 16:49. Samkvæmt upplýsingum frá björgunarsveitinni í Stykkishólmi á Árni Friðriksson að taka Baldur í tog og koma honum inn í höfnina á Stykkishólmi síðar í dag. Hins vegar er ekki búið að finna út úr því hvernig Baldri verður komið að bryggju.

Fréttin hefur verið uppfærð