Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Um þriðjungur kvenna verið beittur ofbeldi

Mynd með færslu
 Mynd: lausnin.is
Um fjórðungur stúlkna og kvenna á heimsvísu hefur verið beittur ofbeldi af eiginmanni eða sambýlismanni samkvæmt umfangsmikilli rannsókn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. Rannsóknin er sú stærsta sinnar tegundar hingað til. Þegar ofbeldi af hálfu annarra er bætt við hefur um þriðjungur kvenna yfir fimmtán ára aldri í heimnum verið beitt einhvers konar líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi.

Rannsóknin er byggð á gögnum frá 161 ríki frá árinu 2000 til 2018. Skýrslan einblínir á líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi. Þar segir að ef aðrar tegundir ofbeldis væru einnig teknar inn í myndina væri hlutfallið enn hærra. Þar er átt við ofbeldi á borð við kynferðislega áreitni og net-ofbeldi.

Ekkert bóluefni við ofbeldi

Þar sem skýrslan nær aðeins til ársins 2018 eru engar upplýsingar um áhrif kórónuveirufaraldursins á heimilisofbeldi. Sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna telja að minnst fimmtán milljón fleiri heimilisofbeldismál hafi orðið í tengslum við aukna heimaveru sökum faraldursins. Tedros Adhanom Ghebreyesus, stjórnandi Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, segir ofbeldi gegn konum landlægt um allan heim. Milljónir kvenna og fjölskyldna þeirra verði fyrir skaða vegna ofbeldisins. Þá segir hann ofbeldið hafa aukist vegna faraldursins, en öfugt við COVID-19 sé ekkert bóluefni að finna gegn kynbundnu ofbeldi. Stjórnvöld, samfélög og einstaklingar verði að standa saman til þess að reyna að breyta ofbeldisfullri hegðun manna, bæta aðgengi kvenna og stúlkna að þjónustu og aðstoð, og ýta undir heilbrigð sambönd byggð á gagnkvæmri virðingu.

Börn læri um heilbrigð sambönd

Doktor Claudia Garcia-Moreno, sem leiðir vinnu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar varðandi ofbeldi gegn konum, tekur undir orð Ghebreyesus. Hún segir skýrsluna hljóta að vekja stjórnvöld um allan heim til umhugsunar um alvarleika málsins. Mikilvægt sé að skila skömminni, þjálfa heilbrigðisstarfsfólk í samtölum við konur sem verða fyrir ofbeldi og taka á öllu kynjamisrétti. Hún segir nauðsynlegt að gera menntastofnanir að öruggum stað, bæta kynfræðslu og kenna börnum hvernig heilbrigð sambönd eigi að vera, byggð á jafnræði og gagnkvæmri virðingu.

Þolendum heimilisofbeldis á Íslandi er bent á að hafa samband við lögreglu í síma 112.