Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Stóra verkefnið að endurheimta störfin

10.03.2021 - 17:53
Mynd: RÚV / RÚV
Almennt atvinnuleysi dróst örlítið saman í febrúar, í fyrsta sinn í mjög langan tíma. Forseti ASÍ segir að stóra verkefnið framundan sé að fjölga störfum og koma fólki í virkni. Aðstoðarframkvæmdastjóri SA segir að efnahagsbati sé í vændum en það muni taka tíma að vinna upp efnahagsslakann og endurheimta störf.

Þó að atvinnuleysi hafi ekki minnkað mikið í febrúar eru þetta tíðindi. Almennt atvinnuleysi hefur ekki minnkað milli mánaða í rúma 20 mánuði. Ef við förum aðeins aftur í tímann þá mældist atvinnuleysi í desember 2017 2,2%.  2018 var það á þessu róli og í lok ársins var atvinnuleysið 2,7%. 2019 tók atvinnuleysið smá kipp og var á bilinu 3- 4%. Fall WOW í lok mars hafði áhrif. Strax í apríl var atvinnuleysið komið í 3,7%. Í byrjun árs 2020 hélt atvinnuleysi áfram að aukast lítillega. Það byrjaði að rjúka upp í mars. Í apríl var það komið í 7,5%, og með hlutabótum var heildaratvinnuleysi þá komið í 17,8%. Í lok ársins mældist atvinnuleysið 10,7%.

Nú virðist vera að rofa til. Í lok febrúar voru yfir 21.300 á atvinnuleysisskrá og fækkaði um tæplega 460 frá í janúar. Atvinnuleysið minnkaði um 2 prósentustig og er nú 11,4%. Meðalfækkun yfir allan mánuðinn er 264. Vinnumálastofnun spáir að atvinnuleysi í þessum mánuði minnki og verið á bilinu 10,9% til 11,3%. Tölurnar fyrir febrúar sýna ekki mikla fækkun atvinnulausra en samt fækkaði þeim í flestum atvinnugreinum - mest í sjávarútvegi, væntanlega vegna loðnunnar og líka í veitingaþjónustu og ferðaþjónustu.

Stórar verkefnið að fjölga störfum

Eru þetta vísbendingar um að landið sé að rísa? Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir að vonandi hafi það náð einhverjum hæðum eða lægðum. Hún vonar að það verði einhver viðsnúningur núna:

„Þetta skilur okkur hins vegar eftir með þetta stóra verkefni að fjölga störfum og að koma fólki í virkni. Og gefa fólki tækifæri að vera þátttakendur á vinnumarkaði. Það er stórátak sem bíður okkar þrátt fyrir að það hafi orðið einhver pínulítil breyting milli mánaða,“ segir Drífa.

Forgangsverkefni að endurheimta störfin

Hvað segja talsmenn atvinnurekenda? Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að þetta sé vissulega jákvæð þróun. Hún segir þetta ekki mikla breytingu en jákvætt sé að sjá að atvinnuleysi minnki, eins og til dæmis í veitingaþjónustu.

„Það sem kannski stendur eftir er að við erum að horfa til þess að það eru tugir þúsunda án atvinnu og 25 þúsund án vinnu og á hlutabótaleið. Þannig að atvinnuleysi er enn þá mjög mikið. Samanlagt atvinnuleysi er 12,5%. Þetta er eitthvað sem við höfum ekki séð áður og þekkjum ekki í okkar hagsögu. Það er ljóst að það eru margir án vinnu og að forgangsverkefni okkar verður á næstu misserum að endurheimta þessi störf.“