Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Neitaði að mála yfir listaverk í strætóskýli

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV

Neitaði að mála yfir listaverk í strætóskýli

10.03.2021 - 19:34

Höfundar

Rúmlega þrjátíu ára gamalt strætóskýli var flutt úr Vatnsmýrinni í portið við Prikið í miðbæ Reykjavíkur í gær. Borgarstarfsmaður neitaði að mála yfir listaverk í skýlinu fyrir nokkrum árum, og bjargaði því þar með.

Strætóskýlið stóð áður við Njarðargötu, í miðri Vatnsmýrinni. Árið 2017 málaði myndlistarmaðurinn Margeir Dire Sigurðarson andlitsmynd inn í skýlið. Stuttu síðar var Hafberg Magnússon, starfsmaður borgarinnar, sendur til þess að mála yfir myndina.

„Ég var beðinn um að fara og mála yfir krot sem sagt var að væri á skýli. Og svo mæti ég á staðinn, horfi á myndina og mér fannst hún bara svo falleg að ég tímdi ekki að mála yfir,“ segir Hafberg.

Fékkstu ekki skömm í hattinn þegar þú komst til baka og sagðist ekki hafa málað yfir myndina?

„Nei yfirmaður minn er svo góður að hann var ekki að biðja um neitt svoleiðis. Hann sá þetta líka sjálfur og honum fannst þetta bara fínt. Við vorum allir sammála um að þetta væri til sóma.“

Þannig að það má segja að þú hafir bjargað þessu listaverki?

„Það vona ég. Það vona ég svo sannarlega.“

Augljóst notagildi

Listamaðurinn Margeir, sem lést árið 2019, var fastagestur á Prikinu og vinur eigendanna. Því kviknaði sú hugmynd að fá skýlið í portið, þar sem fyrir er margs konar veggjalist, meðal annars eftir Margeir. Þangað var skýlið svo flutt í gær, í samvinnu við Reykjavíkurborg.

„Í þessu tilviki, þegar svona kærkominn listamaður fellur frá, þá breytist þessi hugsun um tímann, og að geta fengið þetta skýli, eða tímahylki, sem hann á mikinn part í hingað er bara gífurlega jákvætt og skemmtilegt,“ segir Geoffrey Huntingdon-Williams, einn eigenda Priksins.

Hvað á svo að gera við skýlið hérna? Hefur það eitthvert notagildi?

„Notagildið er náttúrulega bara augljóst, sérstaklega í svona veðrum. Svo er það þessi varðveisla sem við tökum að okkur, að lappa upp á upprunalega litinn á því, þennan Eiðistorgs-rauða eins og ég kalla hann. Þetta er íslensk hönnun frá 1989. Og það er falleg rist hérna undir sem býður upp á ljós og hitalampa og annað. Og við setjum svo plexígler yfir verkið sjálft svo það skussist enginn til þess að krota yfir það aftur,“ segir Geoffrey.

Hafberg segist afar ánægður með flutning skýlisins.

„Mér finnst það eiga mjög vel við, að það skuli hafa farið hingað. Ég held að það eigi bara heima hérna, og að fólk geti komið hingað, skoðað það og notið þess.“