Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Minni losun vegna samdráttar í flugsamgöngum

10.03.2021 - 09:23
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Dregið hefur úr losun gróðurhúsalofttegunda frá hagkerfi Íslands síðustu tvö ár. Meginástæðan fyrir samdrættinum er sú að minna hefur verið um flugsamgöngur. Á milli 2018 og 2019 minnkaði losun frá flugsamgöngum um 36 prósent. 

Losunin frá hagkerfinu árið 2020 var 16,3 prósentum minni en hún var árið 2019, samkvæmt bráðabirgðatölum frá Hagstofu Íslands og fjallað er um í Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans. Losunin árið 2019 var 13,5 prósentum minni en hún var 2018. Árið 2019 var hún 6.575 kílótonn en 5.505 kílótonn árið 2020. 

Aldrei hafa komið eins margir ferðamenn hingað til lands og árið 2018. Árið 2019 hætti flugfélagið WOW air rekstri og þá strax minnkaði losun frá farþegaflugi. Hún minnkaði um 36 prósent á milli áranna 2018 og 2019, áður en faraldurinn braust út.

Frá 2018 til 2019 minnkaði losun frá stóriðju um 9 prósent og segir í Hagsjánni að helsta ástæðan hafi verið bilanir í álverksmiðjum. Losunin frá stóriðju árið 2020 var 1,5 prósentum meiri en hún var 2019, en um 8 prósentum minni en hún var 2018. 

Á síðasta ári smitaðist COVID-veiran um heimsbyggðina með miklum áhrifum á flugsamgöngur og ferðaþjónustu. Losun vegna flugsamganga á fjórða ársfjórðungi 2020 var 25,5 prósentum minni en losun á sama ársfjórðungi 2019. 

Losun fá heimilum minnkaði einnig milli áranna 2019 og 2020. Í Hagsjánni segir að losun heimila sé innan við 10 prósent af heildarlosun hagkerfisins og að langstærstur hennar komi til vegna ferða á einkabílum.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir