Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Gamla Eimskip tekið til gjaldþrotaskipta

Mynd með færslu
Stjórnendur búast við að eftirspurn aukist mikið á innanlandsmarkaði á næstunni.  Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Félagið A1988 hf., sem var stofnað utan um nauðasamninga gamla Eimskipafélagsins, hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Þetta kemur fram í Lögbirtingarblaðinu.

Garðar Þ. Garðarsson lögmaður hefur verið skipaður skiptastjóri búsins, en hann annaðist nauðasamninga félagsins sem voru samþykktir árið 2009. Í þeim samningum var skiparekstur Eimskips færður yfir í nýtt félag sem hlaut nafnið Eimskipafélag Íslands og er rekið enn þann dag í dag. Nauðasamningarnir gengu út á að kröfuhafar gamla félagsins fengu hlut í nýja félaginu.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er íslenska ríkið stærsti kröfuhafinn á hendur gamla félaginu, en ríkið gerir kröfu upp á um 10 milljarða króna. Sú krafa er tilkomin vegna skattaskuldar, en þegar skuldir gamla félagsins voru færðar niður á sínum tíma var litið svo á að skattstofn hefði myndast. Það mál fór fyrir Hæstarétt sem staðfesti þá niðurstöðu. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er hins vegar lítið eftir í þrotabúinu, eða aðeins nokkrar milljónir króna.