Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Verjandi í morðmáli sakar lögreglu um bellibrögð

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Verjandi sakbornings í Rauðagerðismálinu sakar lögreglu um að beita óvönduðum meðulum í rannsókn sinni á mögulegum tengslum skjólstæðings hans við glæpinn. Hún krefjist þess að lögmaðurinn verði kallaður til skýrslutöku sem vitni í málinu, og ætli þannig að svipta sakborninginn verjanda sínum á versta tíma.

„Sjaldgæf örþrifaráð“ lögreglu

Steinbergur Finnbogason er skipaður verjandi Íslendings sem til skamms tíma sat í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar á morðinu í Rauðagerði á dögunum. Í aðsendri grein í Fréttablaðinu segir Steinbergur frá því, að í rannsókn sinni á mögulegum tengslum skjólstæðings hans við morðið hafi „lögreglan gripið til sjaldgæfra örþrifaráða - að losa sig við lögmanninn.“

Með því að krefjast þess að hann verði kallaður til vitnis sé lögregla í raun að krefjast þess að skjólstæðingur hans skipti um lögmann, því óheimilt sé samkvæmt lögum að gegna hlutverki vitnis og verjanda í sama máli.

„Ljótur leikur“ - og ekki í fyrsta sinn

„Þetta er ljótur leikur í stöðunni,“ segir Steinbergur, þar sem lögregla vegi með þessum aðförum að réttindum og andlegri líðan hins grunaða. Ekki sé nóg með að „lögreglan ætli að neyða hann til að skipta um lögmann í miðjum klíðum, heldur á að leiða trúnaðarmanninn, lögmann hans, í vitnastúkuna þar sem reynt verður að rekja úr honum garnirnar.“

Steinbergur segir þetta ekki í fyrsta skipti sem lögreglan leikur þennan leik gagnvart sér. 2016, þegar hann var lögmaður manns sem grunaður var um aðild að peningaþvætti. Þá var hann handtekinn þegar hann kom til skýrslutöku með skjólstæðingi sínum, úrskurðaður í gæsluvarðhald og húsleit gerð á heimili hans og lögmannsstofu.

„Ég endaði að ósekju í gæsluvarðhaldi vegna þess að ég neitaði að svara spurningum sem skaða hefðu skjólstæðing minn. Ég mun gera að aftur núna,“ skrifar Steinbergur, sem segir „eitthvað mikið að ef lögreglan getur leikið þann leik að breyta verjanda í vitni til þess annars vegar að losa sig við hann úr málinu og hins vegar að pumpa upp úr honum upplýsingar sem hann kann að búa yfir vegna trúnaðarsambands við skjólstæðing sinn.“

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV