Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Tryggi fullnægjandi kerfi eða felli próf alfarið niður

09.03.2021 - 00:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Jón Atli
Umboðsmaður barna segir óásættanlegt að ítrekað séu lögð fyrir samræmd próf í prófaserfi sem af skipuleggjendum er metið „algjörlega ófullnægjandi.“ Frestun prófa feli í sér aukið álag fyrir nemendur og því nauðsynlegt að menntamálaráðuneytið taki tafarlaust af skarið . Annað hvort verði tryggt að prófakerfið sé fullnægjandi eða samræmd próf verði alfarið felld niður.

Þetta kemur fram á vef embættisins.

Tæknileg vandkvæði komu upp þegar þúsundir níundu bekkinga hugðust þreyta íslenskupróf í morgun. Ljóst er að stór hluti nemenda tók prófið við ófullnægjandi aðstæður og tókst af þeim sökum ekki að klára það. Því hefur verið ákveðið að fresta prófum í stærðfræði og ensku sem átti að halda á morgun og miðvikudag.

Salvör Nordal, umboðsmaður barna, bendir á að fyrir þremur árum hafi einnig komið upp tæknileg vandamál sem urðu til þess að fjölmörgum nemendum tókst ekki að ljúka prófi. „Haft var eftir forstjóra Menntamálastofnunar í dag að stuðst sé við „algerlega óviðunandi prófakerfi“ og að Menntamálastofnun hafi ítrekað bent ráðuneytinu á að ef leggja eigi próf fyrir með þessum hætti, þá þurfi betra prófakerfi.“

Umboðsmaður segir það algjörlega „óásættanlegt að ítrekað séu lögð fyrir samræmd próf í prófakerfi sem af skipuleggjendum er metið „algjörlega ófullnægjandi“ eins og reynslan hefur sýnt.“ Þessi frestun feli í sér aukið álag fyrir nemendur. „Því er nauðsynlegt að menntamálaráðuneytið taki tafarlaust af skarið og annað hvort tryggi fullnægjandi prófakerfi eða felli alfarið niður samræmd próf.“

Meðal þeirra sem hafa tjáð sig um málið í dag er Hafsteinn Karlsson, skólastjóri Salaskóla í Kópavogi.  Hann segir á Facebook-síðu sinni að það hafi verið „alvarleg mistök og hreinlega skandall að leggja próf fyrir 9. bekkinga með stórgölluðu og greinilega handónýtu kerfi.“ Nám og kennsla fyrir þennan hóp sé í uppnámi í marga daga. „Það er dapurlegt að horfa upp á þetta og ekki til framdráttar fyrir menntamálastofnun eða menntamálaráðuneytið. Látum þessi próf róa.“ Visir.is greindi fyrst frá færslu Hafsteins.