Tók Tvíhöfða fram yfir Pamelu Anderson

Mynd: Kristján Ingvarsson / RÚV

Tók Tvíhöfða fram yfir Pamelu Anderson

09.03.2021 - 14:50

Höfundar

Steinþór Hróar Steinþórsson fetaði ekki í fótspor vina sinna sem hengdu plaköt af Pamelu Anderson upp á vegg heldur fann hann plaköt af helstu fyrirmyndum sínum á þeim tíma, gríndúettinum Tvíhöfða.

Steindi á afa sínum mikið að þakka þegar kemur að grínfyrirmyndum í æsku. Afi hans var duglegur að taka sjónvarpsefni upp á VHS-spólur og sat svo og reykti grænan Salem og horfði á spólurnar. Í safni hans mátti finna fjölmörg Áramótaskaup og fleiri íslenska grínþætti sem Steindi heillaðist af. 

Vinir Steinda festu plaköt af hljómsveitum og Pamelu Anderson á herbergisveggina en hann var sjálfur með Tvíhöfða uppi á vegg. „Tvo karla, annan í jakkafötum og hinn í kjól,” segir Steindi sem var gestur Felix Bergssonar í þættinum Fram og til baka á Rás 2. 

Á unglingsárunum heillaðist Steindi af kvikmyndagerð og notaði fermingarpeningana í upptökuvél sem hann notaði til að taka upp ótal stuttmyndir. Hann skráði sig í nám á kvikmyndabraut í Borgarholtsskóla en var ekki ánægður þar og færði sig yfir á fjölmiðlabraut. Þar leiddist honum líka og hætti því í námi. 

Hann hélt áfram að búa til stuttmyndir og grínatriði og fljótlega fannst honum kominn tími á nýja upptökuvél sem reyndist þó heldur dýrkeypt. „Hún kostaði 155.000 krónur, sem er mjög dýrt. Ég hoppa inn í banka og tek yfirdrátt. Ég fæ það í gegn sem er mjög skrítið. Ég endaði með því að borga yfir 500.000 kr fyrir vélina, ég var svo lengi að borga hana upp”, segir Steindi. 

Upp úr aldamótunum reið rappbylgja yfir landið og Steindi tók fullan þátt í henni. Hann prófaði sjálfur að rappa undir nafninu MC Doobie en hætti því fljótlega þegar hann sá að hæfileikar hans lágu annars staðar. Hann kynntist hins vegar mörgum af sínum bestu vinum í gegnum rappið. „Þetta er í fyrsta sinn sem Mosfellsbærinn fer að kynnast Grafarvoginum, Árbænum og svona,” segir Steindi en þarna voru reglulega haldin rímnaflæðiskvöld, spjallborð á netinu voru vinsæl og mikill samgangur á milli þeirra sem voru að rappa eða hlusta á rapp. „Þetta var mjög spennandi og skemmtilegur tími,” segir Steindi um þessi ár. Þarna kynntist hann til að mynda Ágústi Bent sem er einn af hans nánustu samstarfsmönnum í dag. 

Tveir gallagripir sem eru ánægðir að vera fastir saman

Kona Steinda er Sigrún Sigurðardóttir og saman eiga þau tvær dætur. Þau hafa verið saman í 12-13 ár að sögn Steinda. „Núna verð ég drepinn þegar ég kem heim en hver er að telja? Þetta er alla vega langur tími,” segir hann.

Lagið þeirra Sigrúnar er Stuck With You með Huey Lewis og sagan af því hvernig það gerðist er nokkuð spaugileg. Þegar þau voru að byrja að hittast kom nokkrum sinnum fyrir að þau voru að þrasa í bílnum og þá kom þetta lag alltaf í útvarpinu. „Þetta hljómar eins og við höfum alltaf verið að rífast, en það er ekki þannig. Þetta gerðist þrisvar sinnum. Í þriðja skiptið þegar við vorum í einhverju tuði var þetta lag í helvítis útvarpinu. Stuck With You og ég man eftir að við sprungum úr hlátri, við eiginlega föttuðum það á sama tíma. Hvaða lag er þetta? Það er að elta okkur þetta helvítis lag,” segir Steindi. 

Hann segir valið mögulega vera skringilegt en lagið eigi þó vel við þau. „Textinn á ógeðslega vel við okkur. Við sjáum hlutina mjög kómískt í lífi okkar. Við erum ekkert sérstaklega rómantísk, eða ekkert til að hrópa húrra fyrir. Erum bara tveir gallagripir sem eru bara ánægðir að vera fastir saman,” segir Steindi.

Fjölskyldan býr í Mosfellsbæ en þar kynntust Steindi og Sigrún. Hún bjó ekki í Mosfellsbæ en vann í Lágafellslaug, þar sem Steindi var einmitt að vinna á sama tíma. „Hún hafði ekki hugmynd um hver ég var. Bara einhver lúði í afgreiðslunni. Þetta var ekkert gefins verkefni fyrir mig,” segir Steindi.

Steindi segir marga furða sig á því að þau nenni að búa í Mosfellsbæ en vinna í Reykjavík. Því fylgi þó fjölmargir kostir fylgja þeim ráðahag. Sjálfur er hann alltaf með hundrað bolta á lofti og nýtir tímann sem það tekur að keyra úr miðbænum og upp í Mosfellsbæ til að klára síðustu símtöl dagsins. „Ég er með þá reglu að ég labba aldrei inn til mín í símanum,” segir Steindi sem situr frekar áfram í bílnum á meðan hann klárar vinnudaginn. Um leið og hann labbar inn heima hjá sér er hann búinn í vinnunni og einbeitir sér að heimilinu af fullum krafti. 

„Það er ógeðslega góð regla fyrir þá sem eru mikið að svara skilaboðum og eru límdir við símann að gera þetta. Það er ekkert verra en að dóttir þín er að kalla á þig og þú ert með símann á öxlinni „Bíddu aðeins ástin mín, ég er aðeins að klára eitt símtal,” það er ekki gott. Ég held að þetta sé mjög góð regla,” segir Steindi.

Hoppaði jafnfætis ofan í pólitísku tjörnina

Fyrir nokkrum árum hellti Steindi sér mjög óvænt í bæjarpólitíkina í Mosfellsbæ. Hoppaði með báðar lappir ofan í pólitíska pollinn að eigin sögn. Þetta kom mörgum á óvart og ekki síst honum sjálfum. „Ég er ekkert pólitískur og mér finnst pólitík eiginlega bara leiðinleg,” segir Steindi sem segir núverandi flokkafyrirkomulag gamaldags og helst vill hann bara kjósa gott fólk óháð öllum flokkum. En þegar gamall vinnufélagi, Karl Tómasson, hringdi í hann og bað hann að vera á lista Vinstri grænna samþykkti hann með einu skilyrði. „Ég segi: „Auðvitað, allt sem ég get gert til að hjálpa þér? Þarf ég að gera eitthvað? Þarf ég einhvern tímann að mæta eitthvað? Ég get aldrei mætt neitt,” segir Steindi.

Um leið og nafn hans birtist á framboðslistanum fór síminn hjá honum að hringja. Það voru fréttamenn sem spurðu hvort honum þætti við hæfi að sjónvarpsstjarna væri í framboði. Hann kunni illa við áreitið og ákvað að draga framboð sitt til baka. Hann segir því að pólitíska ferillinn hafi staðið í um það bil viku.  

Að mati Steinda hefði hann aldrei enst lengi í stjórnmálum enda taki allt langan tíma þar. „Ef ég fæ hugmynd vil ég framkvæma hana á morgun og svo vil ég sjá hvernig hún kemur út daginn eftir,” segir Steindi.

Tengdar fréttir

Innlent

Forsetahjón, borgarstjóri og Steindi hlupu til góðs

Menningarefni

Langar að leika fleiri dramahlutverk

Kvikmyndir

Skvettu meira en 200 lítrum af blóði í Þorsta